„Bleikur steinn“ stuðli að jafnrétti kynjanna

Þær Erla Hlynsdóttir, lengst t.v. og Kristín Ólafsdóttir afhentu Jóni …
Þær Erla Hlynsdóttir, lengst t.v. og Kristín Ólafsdóttir afhentu Jóni Kristjánssyni heilbrigðisráðherra fyrsta steininn í dag. mbl.is/Golli

Heilbrigðisráðherra Jón Kristjánsson varð fyrstur íslenskra ráðamanna til að veita „Bleika steininum“ viðtöku. Tvær konur úr Femínistafélagi Íslands afhentu Jóni steininn kl. 10:40 í morgun en honum er ætlað að vera ráðherra áminning um að hafa jafnréttissjónarmið að leiðarljósi við ákvarðanatöku. Biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, mun fá stein afhendan í hádeginu og síðar í dag fær borgarstjórinn í Reykjavík, Þórólfur Árnason, og svo forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson.

Erla Hlynsdóttir, hjá Femínistafélagi Íslands sem ásamt Kristínu Ólafsdóttur afhenti Jóni steininn í morgun, segir ráðherra hafa tekið vel á móti þeim. „Steinaafhending er táknræn athöfn til að minna viðtakendur á að hafa jafnréttissjónarmið að leiðarljósi við ákvarðanatöku og hvatning í leiðinni fyrir viðtakendur að kynna sér femínisma og jafnrétti kynjanna sem er eitt af aðalmarkmiðum femínisma,“ segir Erla. Þá var ráðherra einnig afhent innrammað blað með texta um tilgang afhendingarinnar.

Erla segir að það sé á stefnuskránni að Femínistafélagið veiti nokkrum ráðamönnum bleika steina árlega og þá ávallt á Kvennadaginn 19. júní en þann dag árið 1915 fengu íslenskar konur kosningarétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert