Dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir manndráp af gáleysi

Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Suðurlands yfir karlmanni sjötugsaldri, en hann var dæmdur í eins mánaðar fangelsi skilorðsbundið og sviptur ökuleyfi í eitt ár. Hann var ákærður fyrir manndráp, líkamstjón af gáleysi og umferðarlagabrot. Maðurinn ók í janúar 2002 fólksbifreið austur Suðurlandsveg á röngum vegarhelmingi á þeim vegarkafla þar sem vegurinn liggur í alls krappri beygju ofarlega í Kömbum, án nægilegrar aðgæslu miðað við akstursskilyrði, með þeim afleiðingum af bifreiðin skall framan á jeppabifreið sem ekið var í vestur.

Við árekstur bifreiðanna hlaut farþegi í framsæti bifreiðar mannsins svo mikla áverka að hann lést nær samstundis auk þess sem farþegar í báðum bifreiðum urðu fyrir líkamstjóni, segir í dómi Hæstaréttar. Talið var sannað að maðurinn hafði ekið bifreiðinni án nægilegrar aðgæslu við slæm akstursskilyrði í krappri beygju og á röngum vegarhelmingi þegar áreksturinn varð, segir í dómi Hæstaréttar, sem gerði ákærða að greiða allan sakarkostnað í héraði og áfrýjunarkostnað málsins, þar með talið málsvarnarlaun verjenda síns á báðum dómsstigum, samtals 400 þúsund krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert