Svíar taka undir gagnrýni Íslendinga á vændi í tengslum við Ólympíuleikana

Sænska ríkisstjórnin tekur nú undir gagnrýni Íslendinga á ákvörðun borgaryfirvalda í Aþenu um að leyfa fjölgun vændishúsa í tengslum við Ólympíuleikana á næsta ári. Mona Sahlin, sem meðal annars fer með íþróttamál í ríkisstjórninni, og Margareta Winberg, aðstoðarforsætisráðherra og jafnréttisráðherra, ætla að koma mótmælum á framfæri við Alþjóðaólympíunefndina.

Sahlin segir í viðtali sem birtist í sænskum fjölmiðlum að vændi, sem byggist á niðurlægingu fólks, samræmist ekki bræðralagshugsjón Ólympíuleikanna.

Eins og sagt hefur verið frá í Morgunblaðinu hyggst framkvæmdastjórn Íþrótta- og ólympíusambands Íslands koma á framfæri við Alþjóðaólympíunefndina og ólympíunefnd Grikklands athugasemdum sem borist hafa frá Femínistafélagi Íslands, Kvenfélagasambandi Íslands, Kvenréttindasambandi Íslands, Kvennakirkjunni og Stígamótum um áform borgaryfirvalda í Aþenu. Sagt hefur verið frá mótmælum Íslendinga í fjölmiðlum víða um heim.

Grísk-kaþólska kirkjan hefur einnig sakað grísk yfirvöld um að stuðla að kynlífsferðamennsku til landsins í tengslum við Ólympíuleikana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert