Franska flugvélin lent heilu og höldnu í Reykjavík

Franska flugvélin sem var í vanda stödd vestur af landinu í morgun er lent heilu og höldnu í Reykjavík. Vélin hafði misst afl á hreyfli og hélt ekki hæð og óskaði eftir aðstoð. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, og flugvél Flugmálastjórnar, TF-FMS, voru sendar til móts við flugvélina og fylgdi Flugmálastjórnarvélin henni til Reykjavíkur þar sem hún lenti klukkan 10:06.

Flugvélin er af gerðinni Piper Malibu, PA-46, og um borð voru mæðgin. Bilun kom upp í hreyflinum er þeir voru staddir um 200 mílur vestur af landinu í morgun. Vélin hafði misst afl á hreyfli og hélt ekki hæð og óskaði eftir aðstoð.

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, og flugvél Flugmálastjórnar voru sendar til móts við flugvélina. Mætti sú síðarnefnda henni um 40 mílur vestur af landinu, klukkan 9:27, og fylgdi henni til Reykjavíkur en þá hélt franska vélin flughæð í 10.000 fetum.

Franska flugvélin fór frá Reykjavík klukkan 7:21 í morgun og var á leið til Narssassuaq á Grænlandi. Klukkan 8:34 þegar vélin var stödd rúmlega 200 mílur vestur af Keflavík tilkynnti hún um gangtruflanir í hreyfli og erfiðleika með að halda hæð. Flugmaðurinn snéri við og reiknaði ekki með að ná til lands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert