Stendur á samkeppnisyfirvöldum að óska eftir rannsókn

Það sem virðist standa á í samskiptum ríkislögreglustjóra og samkeppnisyfirvalda er að samkeppnisyfirvöld lýsi því yfir að þau telji að þessi brot séu alvarleg, og þau telji að einstaklingar hafi þarna bakað sér refsiábyrgð, segir Jónína Bjartmarz, starfandi formaður allsherjarnefndar Alþingis.

Ef samkeppnisyfirvöld lýsa því yfir getur ríkislögreglustjóri eða ríkissaksóknari ekki komist hjá því að taka þá afstöðu að hefja beri lögreglurannsókn á ætluðum brotum einstaklinga, segir Jónína. Þetta hafa samkeppnisyfirvöld ekki gert til þessa.

Fundað var í allsherjarnefnd Alþingis í gær að ósk Samfylkingarinnar og var fundarefnið eingöngu samskipti ríkislögreglustjóra og samkeppnisyfirvalda.

"Það er ljóst að viðhorf Samkeppnisstofnunar er að þeir séu ekki að rannsaka brot einstaklinga heldur séu þeir að rannsaka brot lögaðila," segir Jónína.

Fjallað var um samskipti og sjónarmið ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara annars vegar og Samkeppnisstofnunar hins vegar á almennum nótum á fundi allsherjarnefndar og ekki fjallað um rannsókn samkeppnisyfirvalda sem slíka, að sögn Jónínu.

Á fundinn mættu auk nefndarmanna Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri, Jón H.B. Snorrason, yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, Bogi Nilsson ríkissaksóknari og Ásgeir Einarsson, lögfræðingur Samkeppnisstofnunar.

Lögin orðfá

Rætt var m.a. um frumkvæðisskyldu ríkislögreglustjóra til að hefja lögreglurannsókn. "Það er ljóst að lögin eru mjög orðfá um þetta," segir Jónína.

"Viðhorf ríkislögreglustjóra er það að frumkvæðið að því að ríkislögreglustjóri hefji rannsókn hljóti að koma frá Samkeppnisstofnun."

"Ég lít þannig á að samkeppnisyfirvöld hljóti að geta svarað þessari spurningu, hvort þeir telji þessi brot alvarleg og með þeim hafi einstaklingar bakað sér refsiábyrgð, og ef þeir svara henni játandi þá hljóti ríkislögreglustjóri, eða eftir atvikum ríkissaksóknari, að taka ákvörðun um að hefja lögreglurannsókn. En þessari spurningu er enn ósvarað."

Jónína segir ljóst að Samkeppnisstofnun hafi lögsögu í eftirlitshlutverki og við rannsóknir sínar, sem nái jafnt til einstaklinga og fyrirtækja, þótt hún hafi ekki heimildir til að ákvarða sektir nema á hendur lögaðilum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert