Æskilegt fyrir Landhelgisgæsluna að fá upplýsingar fyrr

Hjalti Sæmundsson, aðalvarðstjóri hjá Landhelgisgæslunni, segir að æskilegra hefði verið ef Landhelgisgæslan hefði fengið upplýsingar um rútuslysið, sem varð í Borgarfirði á laugardagsmorgun, um leið og fyrsta tilkynning hefði borist um það til Neyðarlínunnar.

Skv. upplýsingum Morgunblaðsins tilkynnti bílstjóri rútunnar slysið til Neyðarlínunnar um kl. 9.54 á laugardagsmorgni, en Gæslan fékk fyrst vitneskju um slysið kl. 10.08. Hjalti segir að Gæslan hafi metið það svo að þrjátíu manna rútuslys væri næg ástæða til að kalla þyrluna út með forgangi.

Eins og fram hefur komið voru 28 tékkneskir ferðamenn í rútunni, auk bílstjóra og tveggja leiðsögumanna.

Að sögn Hjalta bárust Gæslunni upplýsingar um slysið frá starfsmanni Tilkynningaskyldunnar kl. 10.08, eins og áður sagði, en að sögn Hjalta fékk Tilkynningaskyldan sms-skeyti frá Neyðarlínunni, þar sem hún er á svokölluðum boðunarlista Neyðarlínunnar. Hann segir að starfsmanninum hafi ekki borið að hafa samband við Gæsluna en hann hafi ákveðið það upp á eigin spýtur.

Nokkrum mínútum síðar, eða kl. 10.12 segir Hjalti, hafði Neyðarlínan samband við Gæsluna og bað um að þyrlan yrði sett í viðbragðsstöðu. Gæslan hafi þá tekið ákvörðun um að kalla þyrluna út þegar í stað og fór hún, segir Hjalti, í loftið um 23 mínútum síðar. "Við mátum það svo að þrjátíu manna rútuslys væri full ástæða til að kalla þyrluna út með forgangi." Hann segir að það taki að meðaltali um 30 mínútur að setja þyrluna í loftið eftir útkall.

Nokkru eftir að þyrlan fór á loft lenti hún, að sögn Hjalta, við Ferstiklu, þar sem tveir sjúkrabílar voru á leið frá slysstað til Reykjavíkur. "Í öðrum bílnum var alvarlega slösuð manneskja og var hún flutt um borð í þyrluna sem fór með hana til Reykjavíkur."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert