Afkoma Orkuveitunnar ekki sögð viðunandi

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti í gær að hækka gjaldskrá á heitu vatni um 5,8% og rúmlega 1% á rafmagni. Sjálfstæðismenn í stjórninni greiddu atkvæði gegn hækkununum.

Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitunnar, segir að afkoma OR fyrstu sex mánuði ársins hafi ekki verið viðunandi, en milliuppgjör fyrirtækisins var lagt fram í gær. Hagnaður fyrirtækisins nam 575 milljónum króna en var á sama tíma í fyrra 2.077 milljónir sem var skýrt af miklum gengishagnaði. Rekstrarhagnaður í ár, þ.e. tekjur fyrir fjármagnsliði og afskriftir, var 240 milljónir sem er 65 milljónum króna betri árangur en í fyrra. Eigið fé OR er um 38,2 milljarðar króna. Arðsemi eigin fjár var 1,5% sem telst almennt ekki góð niðurstaða í rekstri fyrirtækis.

Aðspurður hvort fyrirtækinu sé illa stjórnað segir Guðmundur það ákvörðun stjórnar og eigenda hve mikil arðsemin eigi að vera. "Undanfarin ár hefur frekar verið horft til verðlækkana en aukinnar arðsemi. Það er hlutur sem eigendur ákveða en það er ekki þægileg staða að hafa svona lítið uppá að hlaupa. Svona lág arðsemi á eigin fé er erfið. Til að mynda er erfitt að mæta sveiflum eins og þessum," segir Guðmundur og vísar til minnkandi tekna vegna minni orkunotkunar sem leiðir til þess að hækka þarf gjaldskrá notenda.

"Ef við værum að keyra á fimm til tíu prósent arðsemi eigin fjár þá væri miklu minna mál að taka svona sveiflur."

Ekki hægt að draga saman í rekstri

Tekjur Orkuveitunnar voru 450 milljón krónum lægri á fyrri hluta ársins en áætlanir gerður ráð fyrir. Stjórnendur horfðu fram á að daglegur rekstur skilaði ekki nægum tekjum upp í fjárfestingar og arð og á því þurfti að taka að sögn Guðmundur. Ekki sé hægt að draga saman í rekstri fyrirtækisins enda hafi mikið verið hagrætt undanfarin ár. Það endurspeglist í þróun orkuverðs, sem hafi ekki fylgt almennum verðlagshækkunum.

Hann segir eðli starfseminnar þannig að fyrirtækið verður að vera reiðubúið að mæta miklum kuldaköstum sem vari í allt að mánuð. Gert sé ráð fyrir að hækkun hitastigs nú sé bara hluti af nokkurra ára sveiflu. Svo gangi breytingin til baka. Þar sem 90% af starfseminni sé fastur kostnaður, sem verði ekki breytt vegna tímabundinna sveiflna, sé erfitt að draga starfsemina fljótt saman. Viðskiptavinir geri þá kröfu að OR geti selt þá orku sem þeir óski eftir þegar kalt sé í veðri. Allur viðbúnaður miðist við það.

Hækkun þrátt fyrir jákvæð ytri skilyrði

Guðlaugur Þór Þórðarson, borgarfulltrúi og stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur, segir þessa hækkun þurfa að koma til þrátt fyrir hagstæð ytri skilyrði. Fjármagnskostnaður hafi lækkað um 425 milljónir það sem af er árinu vegna hagstæðrar gengisþróunar. Eigið fé fyrirtækisins haldi áfram að rýrna sem nemi um 4,4% á milli ára.

Hann segir ekki lengra síðan en í júní að gjaldskrá fyrir heitt vatn og rafmagn var hækkuð um 3,4%, en hún tók gildi 1. júlí sl. Í því ljósi séu þessi viðrögð nú furðuleg því ekkert hafi breyst síðan þá.

Fjárfestingar veikja fjárhag

Sjálfstæðismenn lögðu fram bókun á stjórnarfundinum í gær þar sem segir að óvarlegar fjárfestingar í Línu.Neti og tengdum fyrirtækjum ásamt byggingu höfuðstöðva, sem hafi farið langt umfram áætlun, séu þegar farnar að veikja fjárhag OR verulega. Þessar fjárfestingar nemi sex til sjö milljörðum króna og ljóst sé að leggja verði meiri fjármuni til þessara verkefna.

Guðlaugur segir að lagt hafi verið til að seldar yrðu eignir eins og höfuðstöðvar, dótturfyrirtæki og eignarhlutur í fyrirtækjum og söluandvirðið yrði að mestu nýtt til að lækka skuldir Orkuveitunnar. Samhliða því verði horfið frá þeirri stefnu að fjárfesta í rækjufyrirtækjum, tölvufyrirtækjum, myndbönkum og öðru sambærilegu.

Næg verkefni séu á hefðbundnum sviðum Orkuveitunnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert