Útlit fyrir 6-10% lækkun til sauðfjárbænda

Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands, segist reikna með að SS greiði sauðfjárbændum 6-10% lægra verð í haust en fyrirtækið gerði á síðasta hausti. Endanleg ákvörðun um verð liggur þó ekki fyrir. Bændur sem slátra í júlí og ágúst fá 90% verðs síðasta árs staðgreitt með álagi. Gerður er fyrirvari um verð umfram það þar sem verðákvörðun haustsins liggur ekki fyrir. Hugsanleg uppbót á verð fyrir sumarslátrun verður greidd þegar ákvörðun um haustverðskrá liggur fyrir.

Verðlagning á sauðfjárafurðum er frjáls en Landssamtök sauðfjárbænda hafa á síðustu árum gefið út viðmiðunarverð. Viðmiðunarverð sem samtökin gáfu út í sumar gerir ráð fyrir að verð til bænda verði óbreytt að öðru leyti en því að verðið hækki í takt við breytingar á vísitölu neysluverðs. Özur Lárusson, framkvæmdastjóri samtakanna, sagðist gera sér grein fyrir að óraunhæft væri að gera ráð fyrir hækkun, en kvaðst vonast eftir að sláturleyfishafar lækkuðu ekki verð.

"Ég reikna með að verðlækkun til bænda verði á bilinu 6-10%. Í raun og veru er sú verðlækkun þegar komin fram í heildsöluverði. Vegna aðstæðna á kjötmarkaðinum eru menn búnir að vera að selja kjöt með verulegu tapi þannig að þessi líklega lækkun þýðir ekki viðbótarlækkun. Í reynd er bara verið að horfast í augu við það sem þegar er orðið," sagði Steinþór.

Óljóst með úreldingu sláturhúsa

Steinþór sagði ekki ljóst hvort SS myndi slátra í jafnmörgum sláturhúsum í haust og fyrrahaust. Hann kvaðst hafa verið að vonast eftir svörum frá stjórnvöldum um hvort fjármunir yrðu settir í úreldingu sláturhúsa, en tillögur um það liggja á borði ríkisstjórnarinnar. Hann sagði það mjög erfitt fyrir sláturleyfishafa að bíða og fá ekki að vita hvort þessum tillögum yrði hrundið í framkvæmd. Stutt væri í að slátrun hæfist af krafti og ákvarðanir þyrfti að taka á næstu dögum um ráðningu starfsfólks og fleira.

Özur sagði ótækt hvað dregist hefði að taka ákvörðun í þessu máli. "Menn verða að fá að vita hvort af þessu verður eða ekki. Ég veit að sumir sláturleyfishafar hafa ætlað sér að loka húsum ef af þessu verður og það er algerlega ótækt að þetta skuli ekki liggja fyrir nú þegar sláturtíð er að ganga í garð."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert