"Það á ekki að ansa þessum körlum"

Útgerðarmenn netabáta hyggjast nú blása til sóknar til að verja hagsmuni sína, verði línuívilnun fyrir dagróðrarbáta komið á. Kröfur þeirra eru annars vegar að verði línuívilnun að veruleika, verði byggðakvótinn notaður til þess en einnig vilja þeir bætur vegna smækkunar á möskva, sem rýrir tekjur netabátanna.

Aðalsteinn Einarsson, útgerðarmaður og skipstjóri á Hring HF, segir að aflaskerðing netabáta hafi verið umtalsverð á síðustu árum og það sé með ólíkindum að hlutur þeirra hafi ekki verið réttur. Þessi bátafloti sé að koma með langverðmætasta fiskinn að landi, stóran og miðlungsstóran þorsk, sem haldi saltfiskvinnslunni í landinu gangandi.

Netabátarnir með bezta fiskinn

"Þessir bátar hafa verið skertir alveg stöðugt og margir af þeim eru komnir niður í 100 tonnin af þorski. Þetta hefur allt verið fært yfir til smábátanna og enn halda þeir áfram og heimta meira. Það á alls ekki að ansa þessum smábátaköllum nema þeir samþykki að byggðakvótinn verði tekinn í ívilnuna og þeir fái ekki kíló fram yfir það.

Það alger misskilningur að smábátarnir séu að koma með einhvern gæðafisk í land. Mikið af afla þeirra er smár fiskur og verðlaus. Netabátarnir hafa alltaf komið með verðmætasta fiskinn að landi og bezt frá genginn, aðgerðan í körum og vel ísaðan. Þessi stóri fiskur af netabátunum fór í salt og þegar hann var seldur til Spánar og Portúgals hélt hann uppi verðinu á smáa fiskinum sem fylgdi með.

Smækkunin á möskvanum niður í 8 tommur, sem ákveðin hefur verið til að vernda stóra fiskinn, skerðir svo aflaverðmæti hjá okkur á netunum um 20 til 30%. Það er enn ein árásin á okkur og við munum fara fram á bætur vegna þess.

Þingmennirnir þarna fyrir vestan eru orðnir þingmenn Breiðfirðinga líka og þeir verða að fara að læra það að hugsa um fleiri en Vestfirðinga. Ég vil líka láta rannsaka það hvað mikið af afla Vestfirðinga sé unnið þarna fyrir vestan. Ég efast um að það sé meira en 15%. Þetta er allt flutt suður. Það heyrir líka orðið sögunni til ef Vestfirðingur þarf að leigja til sín aflaheimildir. Þeir eru komnir með svona mikinn kvóta. Ég tek það fram að mér er ekkert illa við þessa menn, en það er bara allt of mikil frekja í þeim og yfirgangur," segir Aðalsteinn Einarsson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert