Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra flutti ávarp á Hólahátíð: Fjölmiðlar og stjórnmálamenn of fljótir að dæma

„Fjölmiðlun og stjórnmál nútímans eru hörð og óvægin. Menn eru dæmdir í umræðunni löngu áður en mál þeirra fá eðlilega umfjöllun stofnana samfélagsins. Bæði fjölmiðlar og stjórnmálamenn verða að gæta hófs í ummælum sínum um álitaefni og viðkvæm mál. Við getum öll tekið okkur á í þeim efnum.

Vissulega er gagnrýni nauðsynleg, en erum við ekki stundum fullfljót á okkur að dæma aðra?" sagði Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra í ræðu sem hann hélt á Hólahátíð í gær.

Hátíðin hófst með guðsþjónustu í Hóladómkirkju þar sem Jón Aðalsteinn Baldvinsson vígslubiskup prédikaði og að messu lokinni voru veittar kaffiveitingar í boði Hólanefndar. Á sjálfri hátíðarsamkomunni flutti Halldór Ásgrímsson hátíðarræðu, Þorsteinn frá Hamri flutti ljóð og Skúli Skúlason skólameistari flutti ávarp. Á milli þessara atriða var flutt tónlist í umsjá Eyþórs Inga Jónssonar, Kammerkór Akureyrarkirkju söng og einsöngvarar voru Þórhildur Örvarsdóttir og Sigrún Arngrímsdóttir.

Halldór vék að því í upphafi ræðu sinnar á Hólum í gær, að nú værum við stödd á þeim stað sem tengir í ríkari mæli saman menningarsögu og sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar en flestir aðrir.

Halldór fjallaði um mikilvægi menntunar og hvernig Íslendingar hafa orðið þess áskynja á undanförnum árum hversu stóran sess menntun og vísindi skipa í samfélaginu. "Uppbygging háskóla á Akureyri hefur hleypt nýju lífi í mannlíf við Eyjafjörð. Í Borgarfirði á sér stað mikil uppbygging í tveimur háskólaþorpum, svo ekki sé minnst á það góða starf sem fram fer í margvíslegum háskólum í höfuðborginni og annars staðar, meðal annars fyrir tilstilli nútímatækni sem gerir fjarnám mögulegt um land allt. Hólastaður hefur ekki setið eftir í þessum efnum og mér finnst mikið til koma um þá uppbyggingu sem á sér hér stað og er framundan," sagði Halldór.

Framfarir þjóðarinnar með ólíkindum

Halldór talaði um að á þeim tæpu þremur áratugum sem liðnir eru frá því að hann tók sæti á Alþingi Íslendinga hefði íslenskri þjóð fleytt svo fram, að kraftaverk mætti teljast. "Þessar framfarir verða enn ótrúlegri séu þær settar á lengri tímakvarða og skoðaðar í samhengi. Á hundrað árum hefur þjóðin unnið sig upp úr örbirgð til ríkidæmis með dugnaði og hörku, þrátt fyrir ægikraft náttúruaflanna; þrátt fyrir áföll og hamfarir, þrátt fyrir allt að því ómögulegar aðstæður á stundum," sagði Halldór og ræddi í framhaldi af því um alþjóðavæðinguna og að Íslendingar ættu þar fullt erindi eins og hverjir aðrir. "Víða er hlustað á rödd okkar af virðingu og athygli. Sömu virðingu eigum við vitaskuld að sýna öðrum þjóðum, því allir hafa eitthvað merkilegt fram að færa og við verðum aldrei of góð eða of merkileg til að læra af öðrum," sagði Halldór. Halldór sagði að Íslendingar mættu ekki miklast yfir þeim góða árangri sem náðst hefur, heldur þyrftum við að rækta áfram það góða og bæta okkur. Hann talaði einnig til fjölmiðla þar sem hann bað menn að gæta hófs í umfjöllun um álitaefni og viðkvæm mál. "Fréttamat og aldarháttur nútímans, bæði í innlendu og erlendu samhengi, virðist óðum þróast í þá átt að hörmungar og ógæfa séu betra og meira fréttaefni en velgengni og framfarir. Andstaða við mál þykir merkilegri en stuðningur. Fjölmiðlun og stjórnmál nútímans eru hörð og óvægin. Menn eru dæmdir í umræðunni löngu áður en mál þeirra fá eðlilega umfjöllun stofnana samfélagsins. Bæði fjölmiðlar og stjórnmálamenn verða að gæta hófs í ummælum sínum um álitaefni og viðkvæm mál. Við getum öll tekið okkur á í þeim efnum.

Vissulega er gagnrýni nauðsynleg, en erum við ekki stundum fullfljót á okkur að dæma aðra?" sagði Halldór í ávarpi sínu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert