Ráðherra ætlar að senda gripaflutningabíl úr landi

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra hefur gert innflytjanda notaðs gripaflutningabíls og tengivagns að senda tækin úr landi, en þau komu hingað frá Þýskalandi. Styðst ráðherra þar við lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.

Afturkallar ráðherra þarna áður útgefna heimild þar sem skilyrði fyrir innflutningnum, sem yfirdýralæknir setti, höfðu ekki verið uppfyllt.

Var bílnum, ásamt tengivagni, landað upp úr einu skipa Eimskips fyrir helgi og hefur staðið óhreyfður í Sundahöfn. Bílasali flutti ökutækin inn fyrir hönd bónda úr Borgarfirði en þau voru áður notuð til svínaflutninga í Þýskalandi. Voru áform uppi um að breyta honum til flutninga á sauðfé. Áður en bíllinn kom til landsins gaf landbúnaðarráðherra út heimild að uppfylltum ýmsum skilyrðum sem embætti yfirdýralæknis setti.

"Bóndinn var búinn að fá þær upplýsingar að bíllinn væri hreinsaður og fínn en þegar menn frá embætti yfirdýralæknis fóru að skoða vagninn, með sínum næmu augum, þá kom í ljós að hann var illa hreinsaður og illa lyktandi," segir Guðni. Ennfremur kom í ljós að vottorð sem fylgdi ökutækjunum frá Þýskalandi reyndist ekki vera opinbert, eins og krafa er gerð um hér á landi.

Engin áhætta tekin

Landbúnaðarráðherra segir að menn verði að fara að lögum og reglum. Í ljós hafi komið að vagninn hafi ekki staðist uppsettar kröfur til varnar dýrasjúkdómum hér á landi. Engin áhætta verði tekin í þessum efnum.

"Það er mjög mikilvægt að bæði bændur og ýmsir þjónustuaðilar í landbúnaði átti sig á því að þetta er grafalvarlegt mál. Við erum að verja íslenska búfjárstofna fyrir sjúkdómum, eigum hreint land og gerum okkur út fyrir að vera með mikið matvælaöryggi. Þess vegna verður engin áhætta tekin og svona tækjum verður vísað úr landi. Við þurfum að verja okkar neytendur og bjarga þeim frá áhættu á sjúkdómum sem grassera víða í Evrópu. Við leggjum ofurkapp á að halda utan um hreinleika íslensks landbúnaðar því það er okkar aðalsmerki," segir Guðni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert