Fyrirtækjum bannað að nota lénin hasso.com og hreyfill.com

Samkeppnisráð hefur bannað fyrirtækinu Kúlunni ehf. að nota lénið hasso.com á Netinu og lagt fyrir fyrirtækið að afskrá lénið. Þá hefur samkeppnisráð bannað einstaklingi að nota lénið hreyfill.com en talið var ljóst að umræddur einstaklingur hafi notað lénið á þann hátt að neytendur myndu halda að lénið sýndi tengsl við leigubílastöðina Hreyfil og þannig villst á því og léninu hreyfill.is sem Hreyfill notar með fullum rétti.

Hasso Ísland kvartaði til Samkeppnisstofnunar og sagði að viðskiptavinir fyrirtækisins, sem hefðu reynt að hafa samband um Netið með því að fara inn á lénið hasso.com hefðu komið inn á heimasíðu þar sem fram komi að lénið sé til sölu en fyrir neðan þann texta sé blikkandi merki frá bílaleigunni Átaki ehf.

Samkeppnisráð hefur kveðið upp úrskurði í fleiri málum sem tengjast nöfnum á lénum. Þannig hefur ráðið bannað Fasteignasölunni Grund að nota lénnafnið fasteignasalan.is þar sem það er talið of líkt lénnafninu fasteignasala.is sem fasteignasalan Bifröst hefur skráð.

Þá var Bílasölu Íslands bannað að nota lénnafnið billinn.is og nafnið billinn.is. en bílasalan Bíll.is ehf. hafði notað lénnafnið bill.is í rúmt ár áður en Bílasala Íslands skráði sitt lén.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert