50 ökumenn í Grafarvogi kærðir fyrir hraðakstur

Lögreglan í Reykjavík hefur í undanfarna viku sérstaklega einbeitt sér að umferðarmálum í Grafarvogshverfinu. Fylgst var með því hvort reglum um notkun á öryggisbúnaði fyrir börn væri fylgt og reyndist ástandið gott í þeim málum. Þá voru í vikunni 50 ökumenn í Grafarvoginum kærðir fyrir of hraðan akstur. Sá sem hraðast ók var á 125 km hraða á götu sem hefur 50 km hámarkshraða.

Lögreglan fylgdist einnig með því hvort farið væri að reglum um ökurita og hleðslu á farmi og reyndist þörf að kæra einn ökumann vegna ökuritamála. Nauðsynlegt reyndist að fjarlægja 3 skráningarmerki af ökutækjum vegna skoðunarmála. Rætt var við fjölda ökumanna vegna ástands á ljósabúnaði.

Lögreglan í Reykjavík naut aðstoðar umferðardeildar ríkislögreglustjórans í þessu verkefni. Í næstu viku mun lögreglan einbeita sér að umferðarmálum í Breiðholtshverfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert