13 ára stúlka stefndi bónda og krafðist launa fyrir vinnu

Héraðsdómur Norðurlands hefur dæmt hestabónda til að greiða 14 ára gamalli stúlku 50 þúsund krónur í vinnulaun fyrir störf sem stúlkan innti af hendi á búi bóndans í júní og hluta júlí á síðasta ári þegar stúlkan var 13 ára. Bóndinn taldi sig hafa ráðið stúlkuna gegn því að hún fengi reynslu í hestaumhirðu og umgengni en stúlkan taldi sig eiga rétt á launum. Þegar bóndinn neitaði að greiða stúlkunni laun höfðaði móðir hennar mál fyrir hönd dóttur sinnar.

Stúlkan sagði að hefði það verið ætlan bóndans að hún nyti engra launa hafi það verið á hans ábyrgð að gera henni grein fyrir því strax við upphaf ráðningarsambandsins. Stúlkan sagði aldahefð vera fyrir því að börn og ungmenni ráði sig til vinnu í sveitum yfir sumartímann sem og á vegum bæjar- og sveitarfélaga. Í þeim tilvikum séu þeim greidd laun fyrir vinnuframlag þeirra. Sagði stúlkan að gerðar hafi verið til hennar kröfur um frammistöðu og mætingu, hún hafi tekið vinnu sína alvarlega og innt störf sín af hendi af samviskusemi og trúmennsku.

Bóndinn taldi hins vegar að ekki hafi komist á vinnusamningur milli aðila og því bæri honum ekki að greiða stúlkunni laun. Hann sagðist hafa tekið stúlkuna í vist til sín í þeim tilgangi að hún lærði að umgangast hross þar sem hann stundi hrossabúskap og tamningar og hafi því haft tök á að taka stúlkuna til sín í þessum tilgangi. Stúlkan hafi ekki haft ákveðna viðveruskyldu eða vinnuskyldu, enda um 13 ára barn að ræða, og hún hafi ekki haft ákveðin verkefni. Rétt sé hins vegar að hún hafi aðstoðað við umhirðu hrossa, sem reyndar hafi verið mjög lítil þar sem hross hafi ekki verið lengur á húsi. Vinna stúlkunnar hafi því einkum falist í útreiðartúrum og öðru því sem lotið hafi að umhirðu hrossa.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu, að samkvæmt meginreglum vinnuréttar sé það ein af aðalskyldum starfsmanns að inna af hendi vinnuframlag í þágu vinnuveitanda síns. Í málinu liggi fyrir að stúlkan starfaði sannanlega í þágu bóndans á meðan hún var hjá honum þótt þau greini á um vinnustundafjölda og eðli starfans. Aðalskylda vinnuveitanda sé hins vegar að greiða starfsmanni laun fyrir vinnu hans, að meginstefnu til í gjaldgengum peningum.

Dómurinn lagði til grundvallar dagbók bóndans, þar sem skráð var hvenær stúlkan hefði verið við störf á býlinu og taldi að vinnulaun stúlkunnar væru hæfilega ákvörðuð 50 þúsund krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert