Gatnamót á þremur hæðum

Vegagerðin hefur boðið út frumdrög hönnunar og umhverfismats vegna gatnamóta Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar og Listabrautar. Á því að vera lokið í desember í ár. Þetta er í fyrsta skipti sem Vegagerðin býður út þessa þætti, en þeir hafa verið unnir á vegum stofnunarinnar sjálfrar til þessa. Enn eru að minnsta kosti tvö ár í það að sjálfar framkvæmdirnar við verkið geti hafist miðað við að ekki standi á fjárveitingum.

Lagðir eru upp tveir kostir vegna gatnamótanna. Annars vegar er um að ræða gatnamót á sama plani á báðum stöðum og hins vegar um að ræða þriggja hæða gatnamót á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar og tveggja hæða gatnamót á mótum Kringlumýrarbrautar og Listabrautar.

Jónas Snæbjörnsson, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar í Reykjanesi og Reykjavík, sagði að þegar búið væri að leggja báða kostina upp með skýrum hætti væri hægt að taka endanlega ákvörðun um hvor þeirra yrði ofan á og þá myndi sá kostur sem yrði fyrir valinu fara í umhverfismat.

Jónas sagði að ef um þriggja hæða gatnamót væri að ræða yrðu væntanlega tvær hæðir grafnar niður og sú efsta í plani eða örlítið lyft upp. Væntanlega yrði Kringlumýrarbrautin neðst, síðan Miklabraut og talað væri um að hringtorg yrði efst.

Jónas sagði aðspurður að gert væri ráð fyrir að farið yrði í hönnun verksins í beinu framhaldi um næstu áramót og búast mætti við að það tæki vel fram á næsta ár. Miðað við að fjárveiting fengist gætu framkvæmdir hafist í fyrsta lagi í byrjun árs 2006.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert