Sérsveitarmönnum lögreglu fjölgað á næstu árum

Sérsveitarmenn á æfingu.
Sérsveitarmenn á æfingu. mbl.is/Júlíus

Fjölgað verður í sérsveit lögreglunnar úr 21 í 50 á næstu árum og einnig verður sveitin nú stoðdeild undir forsjá ríkislögreglustjóra og sérsveitarmenn hjá lögreglunni í Reykjavík heyra frá og með deginum í dag undir embætti ríkislögreglustjóra. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, tilkynnti þetta á blaðamannafundi í morgun, og sagði að breytingar þessar væru gerðar vegna breyttra aðstæðna og vaxandi hörku í afbrotum. Eiga breytingarnar að stuðla að auknu öryggi lögreglumanna og almennings alls.

Breytingin felur í sér að frá og með deginum í dag heyra 16 sérsveitarmenn hjá lögreglunni í Reykjavík undir embætti ríkislögreglustjóra. Þess vegna verður lögreglumönnum í Reykjavík fjölgað um tíu frá og með 1. júní nk. og má búast við að þær stöður verði auglýstar til umsóknar fljótlega.

Björn segir að meginkjarninn með þessum breytingum sé að verið sé að efla löggæsluna í landinu öllu. Í fréttatilkynningu kemur fram að þessi efling sérsveitarinnar sé nokkuð kostnaðarsöm. Þegar sérsveitarmönnum hefur verið fjölgað í 50 er áætlað að kostnaðurinn á ári við rekstur sveitarinnar nemi 250 m.kr. Dómsmálaráðherra segir það markmiðið að þessi fjölgun nái fram að ganga á fáum árum.

Björn segir að lögreglan þurfi að vera búin undir að sinna m.a. hryðjuverkum. Þá þurfi að bregðast við aukinni hörku í glæpastarfsemi í landinu. „Þetta endurspeglar að við teljum að við séum komin inn í nýtt umhverfi og við skilgreinum þau verkefni sem að lögreglunni snúa á annan veg en áður,“ sagði Björn og bætti við að ríkisstjórnin hafi fallist á þetta mat sitt.

„Auk þess að styrkja lögreglustarf í landinu tryggir þessi nýskipan að sérsveitin raskar ekki lengur starfsemi almennrar deildar lögreglunnar í Reykjavík vegna brotthvarfs mana til sérsveitarstarfa eða þjálfunar,“ segir í tilkynningu. Sérsveitarmenn munu þó áfram sinna almennum lögreglustörfum samhliða þjálfun og sérsveitarverkefnum. Þá munu þeir sinna sérstökum verkefnum um land allt, s.s. að þjálfa aðra lögreglumenn, flugvernd, siglingavernd og friðargæslu.

Björn nefndi sem dæmi að von sé á skemmtiferðaskipi til landsins með 40-50 þúsund farþega og siglingavernd felist m.a. í tryggja öryggi slíkra skipa. „Við þurfum að búa þannig um hnútana að annarra þjóða menn hafi trú á því að við getum brugðist við þeim verkefnum sem upp kunna að koma hér á landi sem annars staðar,“ sagði ráðherra.

Björn segir að stefnt sé að því að hluti sérsveitarinnar sé alltaf til taks á höfuðborgarsvæðinu með engum fyrirvara. Sérsveitin mun hafa sérstakan vaktbíl til umráða og þurfi að senda sérsveitarmenn lengra en sem nemur einnar klukkustundar akstri verða þeir sendir með þyrlu Landhelgisgæslunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert