Hrefnu- og langreyðarstofnar við Ísland taldir hafa náð fyrri stærð

Vísindanefnd NAMMCO telur óhætt að veiða 200 hrefnur hér við …
Vísindanefnd NAMMCO telur óhætt að veiða 200 hrefnur hér við land án þess að það hafi áhrif á stofninn. AP

Vísindanefnd Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins (NAMMCO) telur að hrefnu og langreyðarstofnar við Ísland séu nú nálægt eða búnar að ná þeirri stofnstærð sem var áður en skipulegar veiðar hófust. Telur vísindanefndin óhætt að veiða 200 hrefnur og 150 langreyðar við Ísland án þess að þessir hvalastofnar beri af því skaða. Á fundinum var einnig lýst áhyggjum af útselsstofninum við Ísland og mælt með því að Íslendingar setji skýr markmið um stofnstærð.

Að sögn Gísla Víkingssonar, hvalasérfræðings hjá Hafrannsóknastofnun, byggir nýtt mat á stofnstærð hrefnu og langreyðar við Ísland á upplýsingum frá hvalatalningu sem fór fram árið 2001. Þannig er nú áætlað að Mið-Atlantshafshrefnustofninn við Ísland telji nú um 44 þúsund dýr og að í svonefndum Austur-Grænlands-Íslands langreyðarstofni séu um 25 þúsund dýr.

Á NAMMCO-fundinum var lýst yfir áhyggjum af stöðu náhvals við Vestur-Grænland og kom fram sú skoðun að draga yrði verulega úr veiðum á náhval til að vernda stofninn. Fram kom að Grænlendingar hefðu nýlega gripið til aðgerða til að vernda náhval og mjaldur við vesturhluta Grænlands.

Þá kom fram á fundinum að útselsstofninn við Ísland hefði farið minnkandi síðustu 10 ár og var mælt með því að Ísland setti skýr markmið um viðhald stofnsins. Töluvert hefur verið veitt úr þessum stofni hér við land en enginn ákveðinn veiðikvóti hefur verið gefinn út. Þá taldi NAMMCO að veiðikvótar á útsel í Noregi kynnu að vera of háir, þótt ekki væri veitt upp í þá kvóta. Var einnig mælt með því að Norðmenn settu markmið um stofnstærð.

Að NAMMCO eiga aðild Íslendingar, Norðmenn, Færeyingar og Grænlendingar en fulltrúar frá Kanada, Danmörk, Japan og Rússlandi sóttu einnig fundinn í Þórshöfn sem áheyrnarfulltúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert