Skorað á ráðherra að draga ákvæði um Laxárstíflu til baka

Á almennum fundi í Norræna húsinu í dag var samþykkt ályktun, þar sem skorað er á umhverfisráðherra að draga til baka bráðabirgðaákvæði III með frumvarpi um endurskoðun laga um verndun Mývatns og Laxár. Með bráðabirgðaákvæðinu er opnað fyrir hækkun stíflu í Laxárdal. Jafnframt skorar fundurinn á umhverfisnefnd Alþingis að taka frumvarpið til rækilegrar endurskoðunar.

Í ályktuninni segir, að bráðabirgðaákvæði III sé andstætt þeirri sáttargjörð sem gerð var á Stóru Tjörnum árið 1973 og staðfest var með lögum um verndun Mývatns og Laxár ári síðar. Fundurinn lýsi fullum stuðningi við andstöðu stjórnar Landeigendafélags Mývatns og Laxár við bráðabirgðaákvæði III.

Þá segir, að frumvarpið sé í andstöðu við skuldbindingar Íslands gagnvart Ramsarsamningnum um verndun votlendis. Samkvæmt samningnum sé Ísland skuldbundið til að gera verndaráætlun fyrir Ramsarsvæðið. Það hafi ekki enn verið gert þrátt fyrir að umhverfisráðherra hafi á árinu 2000 upplýst Alþingi um að það stæði fyrir dyrum. Krefst fundurinn þess að slík verndaráætlun verði gerð áður en lög um endurskoðuð lög um verndun Mývatns og Laxár taka gildi.

Þá skorar fundurinn á Landsvirkjun að lýsa því yfir að fyrirtækið falli frá áformum um hækkun stíflunnar í Laxá. Er þeirri skoðun lýst í ályktuninni, að Landsvirkjun beri að leita annarra lausna á meintum vanda í rekstri Laxárvirkjunar í náinni samvinnu við heimamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert