40.000 króna sekt fyrir innflutning á klámmyndum

Karlmaður var í héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur til að greiða 40.000 króna sekt fyrir kynferðisbrot með því að hafa í ágúst 2003 flutt inn 120 mynddiska með klámmyndum. Þá var úrskurðað að mynddiskarnir skyldu gerðir upptækir. Maðurinn, sem er á 37. aldursári, keypti efnið frá Taílandi og í dómnum segir að það hafi verið gert í útbreiðsluskyni.

Í dómnum kemur fram að við tollskoðun hafi komi í ljós reikningar sem tilgreindu tegund og verð vörunnar en að þeim hafi ekki verið framvísað í aðflutningsskjölum. Þess í stað hafi varan verið nefnd „Thai puter wear's“. Diskarnir reyndust innihalda fólk af báðum kynjum í samförum við gagnstætt kyn eða eigið kyn.

Í yfirheyrslu hjá lögreglu í október sl. kvaðst maðurinn eingöngu hafa ætlað að flytja inn DVD-mynddiskana til eigin nota og fullyrti hann að hann ætlaði hvorki að dreifa þeim né selja. Í sendingunni reyndust vera 120 diskar sem höfðu að geyma 48 titlar og voru því einn til þrír diskar af hverri tegund.

Maðurinn kvaðst hafa kynnst sendandanum í Taílandi þegar hann var staddur þar og hafi pantað hjá honum kvikmyndir og svo eitthvað af ljósbláum myndum. Hann hafi pantað James Bond-safn og bíómyndir sem hafi einhverra hluta vegna ekki verið með í sendingunni.

Fyrir dómi breytti maðurinn framburði sínum og sagðist aldrei hafa komið til Taílands. Hann kvaðst hafa haft samband við ákveðinn mann sem hafi síðan farið til Taílands og pantað fyrir sig myndirnar. Hann hafi sent þessum manni peninga.

Í dómnum kemur fram að maðurinn hefur ekki áður sætt refsingu. Þá sé brot hans ekki stórfellt og ekkert liggi fyrir um að hann hafi haft í hyggju að dreifa mynddiskunum í hagnaðarskyni.

Róbert R. Spanó, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn. Manninum var gert að greiða verjanda sínum 90.000 krónur í málflutningslaun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert