Afar þakklátir Íslendingum fyrir hugrekkið

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og eistneski starfsbróðir hans, Arnold …
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og eistneski starfsbróðir hans, Arnold Rüütel. mbl.is/ÞÖK

Arnold Rüütel, forseta Eistlands, segir þjóð sína afar þakkláta Íslendingum fyrir að hafa haft hugrekki til að viðurkenna sjálfstæði Eistlands fyrstir ríkja í ágúst 1991 á meðan önnur ríki heims þögðu. Rüütel, sem staddur er hér á landi í opinberri heimsókn ásamt eiginkonu sinni, Indgrid Rüütel, sagði ennfremur að mikill ótti hafi verið við að Sovétríkin beittu landið hervaldi eftir sjálfsstæðisyfirlýsinguna.

Rüütel talaði um hve erfiðir tímar hefðu verið þegar sjálfstæðisyfirlýsingin var gefin út. Þá var Persaflóastríðið og miklir umbrotatímar í Sovétríkjunum. Forsetinn segir það hafa sent mikilvæg skilaboð til annarra þjóða að Íslendingar skyldu styðja sjálfsstæðisyfirlýsinguna.

Forsetinn sagði mikilvægt að ríkin tvö héldu áfram að vinna saman. Hann nefndi sérstaklega upplýsingatækni og svo tækni á fleiri sviðum. Þá sagði hann Eistlendinga geta miðlað reynslu sinni af því að hrinda umbótum í framkvæmd sem stuðluðu að aðild landsins að Evrópusambandinu, ESB, og Atlantshafsbandalaginu, NATO.

Mikill heiður

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði það mikinn heiður að Ísland væri fyrsta landið sem forseti Eistlands heimsækti eftir að landið gekk formlega í ESB 1. maí sl. Þá sagði hann heimsókn Rüütels styrkja vináttu og samvinnu ríkjanna tveggja.

Ólafur Ragnar sagði það ótrúlega þróun mála að um áratug eftir að Íslendingar viðurkenndu sjálfstæði Eistlands væru Íslendingar að taka á móti forseta ríkis, sem er orðinn bandamaður Íslands í NATO og bandamaður við uppbyggingu nýrrar Evrópu í gegnum aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu og aðild Eistlands að ESB. Þá sagði Ólafur Ragnar að átta smáríki Norður-Evrópu, Eystrsaltsríkin og Norðurlönd, hefðu mjög mikilvægt bandalag í Norræna fjárfestingarbankanum. Þá sagði Ólafur Ragnar áhugavert að í fyrsta skipti í sögu NATO og ESB er nú stór hópur smáríkja í báðum bandalögum. Þá talaði Ólafur Ragnar um persónulegt framlag Rüütel til sjálfstæðisbaráttunnar í Eistlandi og lýðræðisþróunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert