Alþingi kallað saman 5. júlí vegna þjóðaratkvæðagreiðslu

Alþingishúsið.
Alþingishúsið.

Davíð Oddsson, forsætisráðherra, segir að ríkisstjórnin hafi ákveðið að Alþingi komi saman mánudaginn 5. júlí til að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin. Gert er ráð fyrir að þingið standi í rúma viku. Davíð sagði eftir ríkisstjórnarfund í dag, að áætlað væri að kostnaður við atkvæðagreiðsluna verði á bilinu 1-200 milljónir króna.

Gert er ráð fyrir að Alþingi ákveði kjördag, en Davíð sagði við fréttamenn að að vonast væri til að hægt yrði að tilkynna um kjördaginn fyrr. Væri að því stefnt að sá dagur gæti verið fyrri hluta ágústmánaðar.

Fjórir hæstaréttarlögmenn hafa verið skipaðir í starfshóp til að undirbúa lagasetningu vegna atkvæðagreiðslunnar. Á starfshópurinn að taka afstöðu til þess við hvaða tímamark sé eðlilegt að miða að slík atkvæðagreiðsla fari fram, hverjir eigi að teljast kosningarbærir í henni og hvaða skilyrði eðlilegt sé að setja um þátttöku og afl atkvæða í atkvæðagreiðslunni.

Í starfshópnum sitja hæstaréttarlögmennirnir Karl Axelsson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, sem jafnframt er formaður hópsins, Andri Árnason, Jón Sveinsson og Kristinn Hallgrímsson. Með hópnum starfar af hálfu forsætisráðuneytisins Kristján Andri Stefánsson, deildarstjóri. Mælst hefur verið til þess að starfshópurinn hraði störfum eins og kostur er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert