Vill ræða við forseta um fjölmiðlalögin

Ástþór Magnússon forsetaframbjóðandi segir Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, hlaupast undan því að svara áskorun sinni um að ræða ákvörðunina um synjun staðfestingar fjölmiðlalaganna í Kastljósþætti Sjónvarpsins. Í samtali við Morgunblaðið sagði Ástþór, að hann hefði ítrekað reynt að fá viðbrögð við áskorun sinni, en ekki fengið nein svör. Þar spyrji hann beint út hvort forsetinn gangi erinda Norðurljósa.

"Mér var bent á að tala við lögmann Norðurljósa, Gunnar Jónsson, en ég sagðist ekkert hafa við þann mann að tala, ég væri að beina mínu erindi til forseta Íslands," sagði Ástþór.

Forsetinn í Bláa lóninu

Ástþór segist hafa heyrt á skrifstofu forsetans að hann væri í Bláa lóninu. Ástþór fór þá af stað í Bláa lónið, en mætti forsetabílnum á leiðinni og sneri við. "Um leið og þeir sjá þetta er bara gefið í og keyrt á 150 kílómetra hraða, allan Keflavíkurveginn," sagði Ástþór. Veitti Ástþór forsetabílnum eftirför, og endaði förin á skrifstofu forseta við Sóleyjargötu. Ástþór segir forsetann hafa farið hlaupandi í loftköstum út úr bílnum og inn á skrifstofuna, og sér hafi verið meinað að ná tali af honum. "Svo var ég þarna í líklega einn og hálfan klukkutíma og bað um að fá að hitta hann, og því var synjað," bætir hann við.

Loks fór Ástþór að Bessastöðum, en þá meinaði lögregla honum aðkomu að öðrum byggingum en kirkjunni, að hans sögn. Ástþóri er spurn hvað forsetinn hræðist. "Hann getur ekki kastað svona hlut inn í kosningabaráttu tveimur eða þremur vikum fyrir kosningar, og neitað svo að hitta meðframbjóðendur sína og ræða þessi mál," sagði Ástþór. "Þetta er náttúrlega mjög stórt mál um forsetaembættið, og það er jafnvel verið að tala um að leggja eigi embættið niður út af þessu," bætti hann við.

Mun ræða við útvarpsstjóra

Aðspurður segist Ástþór næst munu fara á fund útvarpsstjóra, þar sem Ríkisútvarpið neiti að birta fréttir af tilraunum hans til að ná tali af forseta Íslands. Á sama tíma sé ávarp forsetans um þetta mál á heimasíðu RÚV, "en ekki boðið upp á að ég geti komið með mótvægi við þetta ávarp hans. Það er bara hans áróður þarna," segir Ástþór.

"Ég vil að þjóðin viti um þessar tilraunir. Forsetinn hagar sér eins og krakki. Það hæfir ekki forseta Íslands," sagði Ástþór að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert