Reykjanesbær fagnar 10 ára afmæli

Börn að leik í Reykjanesbæ. Bærinn fagnar 10 ára afmæli …
Börn að leik í Reykjanesbæ. Bærinn fagnar 10 ára afmæli í dag og verður afmælinu fagnað um helgina með kaffihátíð. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Reykjanesbær fagnar 10 ára afmæli í dag og mun af því tilefni verða efnt til kaffihátíðar í bænum þessa helgi og verða kaffihús bæjarins með kaffitengda dagskrá í tengslum við afmælið. Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar segir að besta afmælisgjöfin til bæjarins til þessa sé gott gengi bæjarins í alþjóðlegu samanburðarprófi þar sem lýðræðislegt fyrirkomulag og gegnsæi stjórnkerfis var metið.

Árni segir margt að gerast í bænum um helgina í tengslum við kaffihátíðina. „Ýmist verður boðið upp á kaffiveitingar í hefðbundnum skilningi eða kaffitengdar afurðir nýttar í matargerð,“ segir Árni. Hann segir að grunnurinn að þessu sé sá að í bænum hafi orðið til fyrirtækið Kaffitár, sem fyrst hafi verið lítið, en hafi vaxið og dafnað. Það sé dæmi um hugvit og framkvæmdasemi einstaklinga sem náð hafi að þróa verkefni áfram og gera að stórum tækifærum.

Þá verður í dag opnuð í Duus húsum sýning Byggðasafns Reykjanesbæjar sem heitir „Milli tveggja heima. „Við erum þar að kynna ýmsa þætti frá Byggðasafninu í tilefni afmælis bæjarins,“ segir Árni. Sýningin verður opnuð klukkan fjögur en hún mun standa í eitt ár.

Árni segir jafnframt að á afmælisdaginn hafi Reykjanesbæ borist þær ánægjulegu fréttir, í erindi Harald Baldersheim, prófessors við Óslóarháskóla, að bæjarfélagið hafi komið einstaklega vel út í alþjóðlegu samanburðarprófi fyrir sveitarfélög, svonefndu Bertelsmann-prófi, sem metur ýmsa þætti í þjónustu þeirra við íbúa.

Reykjanesbær hafi komið inn í prófið í tengslum við vinabæjarsamskipti á Norðurlöndum. Vinabæir Reykjanesbæjar sem þátt tóku í því eru Kristianssand í Noregi, Trollhättan í Svíþjóð, Jörving í Danmörku og Kerava í Finnlandi. Fjögur ár séu síðan bærinn tók fyrst þátt í prófinu, en það er framkvæmt á tveggja ára fresti. „Átta þættir sem snúa að lýðræðislegu fyrirkomulagi og gegnsæi stjórnkerfis eru metnir,“ segir Árni. Meðal þáttanna er aðgangur íbúa að upplýsingum, samstarf stjórnmála og stjórnsýslu og valddreifing í stjórnkerfinu.

Stig eru gefin fyrir árangur í þáttunum átta og hlaut Reykjanesbær 524 stig í nýjustu mælingunni. Að sögn Baldersheim er algengt að norræn sveitarfélög fái á bilinu 300 til 350 stig í prófunum. „Við erum önnur hæst í aukningu á milli prófanna,“ segir Árni, en aðeins Trollhättan í Svíþjóð bætti sig meira að hans sögn.

„Við erum langminnsta sveitarfélagið og þess vegna má segja að þetta sé líka mjög ánægjulegt. Það er erfitt að halda uppi góðri og margvíslegri þjónustu í minni sveitarfélögum,“ segir Árni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert