Davíð Oddsson: Þurfum að setja almenna reglu sem á að gilda til frambúðar

Davíð Oddsson forsætisráðherra segir að endanlegar ákvarðanir um efnisatriði frumvarps ríkisstjórnarinnar um þjóðaratkvæðagreiðslu verði væntanlega teknar á ríkisstjórnarfundi á morgun, föstudag, eða á laugardag. Miðað er við að frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu verði lagt fram á Alþingi, þegar það kemur saman að nýju, mánudaginn 5. júlí.

Allt annars eðlis

Vinna við frumvarpið er hafin í forsætisráðuneytinu, þ.e. "handavinnan" í kringum það, eins og Davíð orðar það. "Það er augljóst að við þurfum að setja almenna reglu sem á að gilda til frambúðar," segir hann spurður um efni frumvarpsins. "Sú regla hlýtur að þurfa að sjá til þess að það þurfi að koma fram ríkur þjóðarvilji í málinu, ef taka á úr gildi lög, sem þegar hafa tekið gildi, og eru búin að gilda í tvo til þrjá mánuði og þing hefur sett, þing sem nýbúið er að kjósa til, fyrir ári síðan af 88% þjóðarinnar."

Hann segir það gefa augaleið að hér sé ekki um venjulega þjóðaratkvæðagreiðslu að ræða, sem þingin ákveða sjálf. "Þetta er allt annars eðlis og það þarf að gilda um það almenn regla og menn mega ekki láta dægurmál sem nú eru uppi rugla sig í þeim efnum."

Davíð segist ekki hafa tekið endanlega afstöðu til þess hvernig sú regla eigi nákvæmlega að vera.

Þegar Davíð er inntur eftir því hvort ágreiningur sé uppi milli sjálfstæðismanna og framsóknarmanna um tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslunnar segir hann að umræða um ágreining sé skrýtin í ljósi þess að "þessir aðilar eru ekki byrjaðir að tala saman", segir hann. Þeir framsóknarmenn sem Morgunblaðið ræddi við í gær leggja sömuleiðis áherslu á að enginn frumvarpstexti liggi fyrir og í því ljósi sé ekki hægt að tala um ágreining milli framsóknarmanna og sjálfstæðismanna. Þeir segja að það muni koma í ljós á föstudag, þegar frumvarpsdrög verða lögð fram á ríkisstjórnarfundi, hvort ágreiningur sé uppi í málinu.

Framsóknarmenn funduðu í gærkvöld

Þingflokksfundur framsóknarmanna hefur verið boðaður á mánudag, en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hittust þó framsóknarmenn á óformlegum fundi í gærkvöld til að ræða þjóðaratkvæðagreiðsluna.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert