Forseti Alþingis úrskurðar hvort frumvarpið telst þinglegt

Halldór Blöndal, forseti Alþingis, hyggst leggja fram við upphaf þingfundar á morgun, miðvikudag, úrskurð sinn um það hvort fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar, sem lagt var fram á Alþingi í gær, sé þinglegt. Verður sá úrskurður lagður fram, að sögn Halldórs, samkvæmt beiðni formanna þingflokka stjórnarandstöðunnar.

Eftir að Davíð Oddsson forsætisráðherra hafði sett Alþingi síðdegis í gær gagnrýndu stjórnarandstæðingar hið nýja fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar harðlega.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, spurði Halldór Blöndal m.a. að því hvort í frumvarpi ríkisstjórnarinnar væri ekki fólgin "óþingleg ætlan um að fara á svig við stjórnarskrána og hafa með brögðum af þjóðinni réttinn til þess að kjósa um málið í samræmi við ákvæði 26. gr. stjórnarskrárinnar".

Efast um málsmeðferð

Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði að ríkisstjórnin hefði ekki kjark til að leggja fjölmiðlalögin í dóm kjósenda og Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, kvaðst efast um að málsmeðferð ríkisstjórnarinnar stæðist stjórnarskrá og þingsköp Alþingis.

Davíð Oddsson sagði á hinn bóginn að þingkosningar færu fram áður en nýju fjölmiðlalögin öðluðust gildi. "Þannig liggur þetta fyrir; þegar þetta frumvarp hefur verið afgreitt getur fólk greitt um það atkvæði."

Umræðan í upphafi þingfundar í gær fór fram undir dagskrárliðnum: umræður um störf þingsins. Þegar mælendaskrá undir þeim lið var tæmd sleit Halldór Blöndal þingfundi þrátt fyrir mótmæli Steingríms J. Sigfússonar og fleiri stjórnarandstæðinga, sem vildu ræða fundarstjórn forseta. "Samkvæmt þingsköpum eiga þingmenn rétt á því að ræða um fundarstjórn forseta," sagði Steingrímur í samtali við Morgunblaðið. Telur hann Halldór því hafa brotið þingsköp.

Forseta heimilt að slíta fundi

Halldór segist hafa litið svo á að umræðuefni fundarins væri tæmt. "Forseti hefur að sjálfsögðu heimild til að slíta fundi. En það má líka segja að slíkt geti orkað tvímælis hvenær það sé gert."

Forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna funduðu strax að loknum þingfundi í gær og réðu ráðum sínum. Að því búnu funduðu formenn þingflokkanna með Halldóri Blöndal, forseta þingsins. Næsti þingfundur Alþingis hefur verið boðaður kl. tíu á morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert