Stöðvaður eftir að hafa ekið á allt að 200 km/klst.

Lögreglan á Akureyri og Húsavík stöðvaði för ökumanns eftir mikla eftirför frá Akureyri til flugvallarins við Húsavík seint í nótt. Þegar hraðinn var sem mestur mældist bifreið ökuþórsins á tæplega 200 km/klst. Innanbæjar á Akureyri, þar sem eftirförin hófst, mældist hraðinn allt að 140 km/klst. Ökumaður, hálfþrítugur karlmaður, er grunaður um ölvun við akstur og gistir nú fangageymslu lögreglunnar á Húsavík.

Eftirförin hófst kl. 5:25 í nótt er lögreglan á Akureyri vildi ná tali af bílstjóranum, sem sinnti í engu stöðvunarmerkjum lögreglu. Sem fyrr segir var hraðinn mikill þegar ökumaður reyndi að komast undan lögreglu og barst förin út fyrir bæinn í átt til Húsavíkur. Í Aðaldalshrauni mældist hraðinn á bíl ökuþórsins 190-200 km/klst.

Lögreglan á Húsavík setti upp vegtálma á Laxárbrú um 12 km fyrir sunnan Húsavík og ók bílstjórinn þá inn á afleggjarann að Húsavíkurflugvelli þar sem lögreglan á Húsavík náði að aka utan í bifreið hans og snúa henni þannig að hann neyddist til að stöðva. Lauk eftirförinni kl. 5:57 og hafði þá staðið í rétt rúman hálftíma.

Var ökuhraðinn ekki mikill þegar lögreglubílnum var ekið utan i bíl ökuþórsins og skemmdir óverulegar, að sögn varðstjóra hjá lögreglunni á Húsavík, rispur og brotið stefnuljós. Bílstjórinn er grunaður um ölvun við akstur og gistir nú fangageymslur lögreglunnar á Húsavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert