Sjö blóm í úrslitum samkeppni um þjóðarblómið

Blóðberg komst í úrslit í keppninni um þjóðarblómið.
Blóðberg komst í úrslit í keppninni um þjóðarblómið. mbl.is/Jóhann Óli

Dagana 1.-15. október fer fram opin skoðanakönnun með raðvali í samstarfi við Morgunblaðið. Allir Íslendingar geta tekið þátt í þessari könnun sem fer fram á mbl.is og felst í því að velja þá plöntu sem þeir telja að eigi að hljóta sess sem þjóðarblóm Íslands. Valið stendur á milli sjö blóma: blágresis, blóðbergs, geldingarhnapps, gleym-mér-eiar, holtasóleyjar, hrafnafífu og lambagrass.

Í tilkynningu frá Landvernd kemur fram, að á liðnu vori var kallað eftir rökstuddum ábendingum um þjóðarblóm og sú könnun leiddi til þess að gefinn var út bæklingur þar sem kynntar voru tuttugu rökstuddar hugmyndir sem fram höfðu komið. Þá voru grunnskólarnir hvattir til að taka málið til umfjöllunar og afrakstur þeirrar umfjöllunar er um þessar mundir kynntur í Kringlunni í Reykjavík.

Verkefnisstjórn hefur nú farið yfir innsend gögn og ábendingar og komist að þeirri niðurstöðu að blágresi, geldingarhnappur, holtasóley, hrafnafífa og lambagras uppfylli þau viðmið sem sett voru auk þess sem val þeirra sé í samræmi við tilnefningar. Þá hafi komið fram ýmsar ábendingar frá grunnskólunum sem bentu til þess að blóðberg og gleym-mér-ei ættu sérstakan sess í hugum unga fólksins og því hafi verið talið rétt að leggja þau fyrir í skoðanakönnuninni.

Fram kemur í tilkynningunni að Eyrarrós virðist einnig njóta víðtæks stuðnings sem þjóðarblóm. Grænlendingar hafa hins vegar tileinkað sér Eyrarrós sem sitt þjóðarblóm og því þótti verkefnisstjórn ekki skynsamlegt að ætla henni sama sess hér á landi, ekki síst þar sem gott samstarf er við Grænlendinga á sviði ferðamála.

Frekari upplýsingar um skoðanakönnunina og blómin 7 er að finna á www.landvernd.is heimasíðu Landverndar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert