Brynhildur Þórarinsdóttir hlýtur Íslensku barnabókarverðlaunin

Brynildur Þórarinsdóttir tekur við barnabókaverðlaununum í dag.
Brynildur Þórarinsdóttir tekur við barnabókaverðlaununum í dag. mbl.is/Golli

Tilkynnt voru úrslit í samkeppninni um Íslensku barnabókaverðlaunin kl. 16.00 í Þjóðmenningarhúsinu í dag, 30. september, og hlaut Brynhildur Þórarinsdóttir verðlaunin fyrir bók sína Leyndardómur ljónsins, að því er fram kemur í tilkynningu frá Eddu. Þar segir að dómnefnd Íslensku barnabókaverðlaunanna hafi verið sammála um að handritið bæri af öðrum sem send voru inn í keppnina.

Í áliti nefndarinnar segir meðal annars: „Leyndardómur ljónsins er dularfull og spennandi saga, þar sem höfundi tekst að skapa lifandi og skemmtilega lýsingu á samfélagi krakka í skólabúðum úti á landi.“

Leyndardómur ljónsins fjallar um fjóra krakka, Tomma, Önnu, Harra og Valdísi sem kynnast í skólabúðum að Reykjum í Hrútafirði. Þar eiga sjöundu-bekkingar frá Reykjavík og Akureyri að dvelja saman í heila viku. Strax á fyrsta degi fara undarlegir atburðir að gerast,“ segir meðal annars um bókina í tilkynningunni.

Leyndardómur ljónsins er fjórða bók Brynhildar Þórarinsdóttur. Fyrri bækur hennar eru Lúsastríðið (2002), Njála (2002) sem er endurritun á Njálssögu og Egla (2004) sem er endurritun á Egilssögu. Fyrir Njálu hlaut Brynhildur Vorvinda, viðurkenningu Barna og bóka, Íslandsdeildar IBBY árið 2002. Auk þess sigraði hún í smásagnasamkeppni móðurmálskennara árið 1997 með sögunni Áfram Óli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert