Grunaður um að níðast á hrossum

Lögreglan á Selfossi handtók skömmu eftir miðnætti í nótt mann í Þorlákshöfn eftir að sést hafði til hans koma út frá hesthúsi í hesthúsabyggðinni þar í bæ. Grunsemdir voru uppi um að maðurinn hefði verið að fá kynferðislega útrás á skepnum í húsinu.

Lögreglan segir, að maðurinn hafi verið færður í fangageymslu og sé málið í rannsókn. Verði dýralæknir m.a. fenginn til að kanna hvort átt hafi verið við hrossin og þá hvort þau hafi orðið fyrir skaða.

Þetta kemur fram í yfirliti lögreglunnar á Selfossi yfir helstu verkefni síðustu viku. Þar kemur einnig fram, að lögreglan handtók á föstudag ungan mann vegna gruns um innbrot í Hamar, verkmenntahús Fjölbrautaskóla Suðurlands, sem átti sér stað 18. september síðastliðinn. Ungi maðurinn viðurkenndi við yfirheyrslu að hafa brotist þar inn og stolið skjávarpa og fartölvu en hann hafi losað sig við tækin strax eftir innbrotið.

Lögreglan segir, að vegna ungs aldurs brotamannsins hafi fulltrúi barnaverndarnefndar verið kallaður til og var hann viðstaddur yfirheyrsluna. Þessi ungi maður hafi áður komið við sögu lögreglu vegna innbrota bæði á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglan fékk í vikunni tilkynningu um mann sem talin var í annarlegu ástandi við akstur bifreiðar á Selfossi. Ekki var talið að maðurinn væri undir áhrifum áfengis eða annarra efna. Hins vegar lék grunur um að hann hefði í fórum sínum fíkniefni og var gerð húsleit á heimili hans á Selfossi. Fannst lítið magn af fíkniefnum sem hald var lagt á.

Eldur kom upp í bíl við Hótel Örk í Hveragerði á laugardagskvöld. Talið er að eldurinn hafi kviknað út frá flugeldi sem hafði verið notaður við flugeldasýningu fyrr um kvöldið.

Lögregla segir, að líkur bendi til að í einum flugeldinum hafi verið eftir ein bomba ósprungin og glóð í flugeldinum sem hafi náð í bombuna eftir að sýningunni lauk og sprungið og eldur komist í bifreiðina sem stóð rétt hjá. Slökkvilið Hveragerðis var kallað út og slökkti eldinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert