Ungir sjálfstæðismenn á Akureyri harma verkfall

Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, harmar að grunnskólakennarar hafi enn einu sinni valið þann kost að fara í verkfall og stefna með því framtíð grunnskólabarna í hættu, og halda þeim í gíslingu sinni eins og margoft áður, að því er fram kemur í ályktun frá félaginu.

Telur félagið rétt að hvetja sveitarfélög til að íhuga breytt fyrirkomulag á rekstri í skólamálum. Mikilvægt er að fá fram meiri umræðu um möguleikann á einkarekstri í skólakerfi grunnskóla, slíkt myndi að mati félagsins stuðla að fjölbreyttara og litríkara skólastarfi, að því er fram kemur í ályktun Varðar.

Þar segir jafnframt að Vörður telji verkfallsvopnið vera úrelt tæki í kjarabaráttu. Verkfall bitnar nú sem fyrr á þeim sem síst skyldi. „Verkföll eru leifar gamalla tíma úr úreltri kjarabaráttu og notkun þess setur í þessu tilfelli heila stétt á lægri stall. Sérstaklega telur félagið rétt að harma hörð viðbrögð kennaraforystunnar við jákvæðu og eðlilegu frumkvæði fyrirtækja að bjóða börnum starfsmanna sinna gæslu á vinnutíma sem er fráleitt að kalla verkfallsbrot,“ segir meðal annars í ályktuninni.

Þar segir ennfremur að vonlaust sé fyrir sveitarfélögin að ganga að ýtrustu kröfum kennaraforystunnar og fátt sem bendi til að svigrúm sé til þess.

Í ályktun Varðar um forsetaembættið kemur fram að Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, fagni því að Pétur Blöndal alþingismaður, hafi lagt fram á Alþingi, frumvarp til laga um að leggja niður embætti forseta Íslands, árið 2008, við lok núgildandi kjörtímabils forsetans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert