Segir kennara að „tala sig út í ólöglegt verkfall“

Illugi Gunnarsson, annar stjórnandi Sunnudagsþáttarins á Skjá einum og aðstoðarmaður utanríkisráðherra, telur að ummæli formanns Kennarasambands Íslands í Morgunblaðinu síðastliðinn föstudag séu þess eðlis að verkfall þeirra hljóti að vera ólöglegt. Segir hann ennfremur „að 17. grein laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna hljóti að vekja kennara til töluverðrar umhugsunar“.

Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, var gestur Illuga í Sunnudagsþættinum í gær þar sem vinnudeila kennara við sveitarfélögin var til umræðu.

Aukið fjármagn

Las Illugi upp ummæli Eiríks í Morgunblaðinu síðastliðinn föstudag og kvað eftirfarandi haft eftir honum. „Eina lausnin sem nú blasir við er að ríkisstjórnin komi að málinu með aukið fjármagn. Hún þarf að koma að þessum málum með því að viðurkenna að skiptingin milli ríkis og sveitarfélaga er röng og hefur verið það lengi.“

Sagði Illugi, að miðað við þessi ummæli Eiríks og ummæli talsmanna sveitarfélaganna, mætti segja að staðan væri sú núna að "raunverulega beinist verkfallið að hluta til að ríkisvaldinu. Það að segja að lausnin er þessi," sagði Illugi.

Síðan bætti hann við: „Gott og vel, mér sýnist staða þessarar kjaradeilu vera þannig, að verkfallið beinist að því að ríkið verði þar með að breyta tekjuskiptingunni milli ríkis og sveitarfélaga. En þegar maður lítur á lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna og flettir upp á 17. greininni, þá er talað um það hvenær óheimilt sé að hafa vinnustöðvun og hvenær verkfallið er ólöglegt. Það er þegar deiluaðilar, eða sá sem fer í verkfall krefst þess að ríkið geri eitthvað, breyti hegðun sinni eða geri eitthvað sem því er ekki skylt að gera samkvæmt lögum, þar sem ríkið er ekki aðili að vinnudeilunni. Nú eruð þið ekki starfsmenn ríkisins, þið eruð starfsmenn sveitarfélaganna. Þið eruð með kröfur á sveitarfélögin um það að þau eigi að borga ykkur ákveðið kaup. Sveitarfélögin segja „við eigum ekki peninga“. Þið hafið viðurkennt að þau eigi ekki þessa peninga og segið núna; við erum í verkfalli og höldum áfram að vera í verkfalli. Ríkið verður að koma inn og leysa málið með meiri pening. Ég sé ekki betur en að þið séu að tala verkfallið ykkar út í það að verða ólöglegt,“ sagði Illugi.

Segjast benda á lausnina

Eiríkur sagði svo ekki vera. „Nei. Okkar krafa beinist að sveitarfélögunum og það eru sveitarfélögin sem eiga að leysa málið. Við höfum hins vegar bent sveitarstjórnarmönnum á það með hvaða hætti þeir geti leyst vandann. Þetta er þannig lagað séð þríhliða; að við erum að semja við sveitarfélögin. Sveitarfélögin eru síðan í samstarfi við ríkið og eins og ég hef nú bent á áður er aðalvandinn þessi pólitíska samtrygging, sem ég kalla, að þessir flokkar eru ýmist með eða á móti. Það eru tveir flokkar sem mynda ríkisstjórn, en sums staðar eru þessir tveir flokkar í minnihluta í sveitarstjórnum,“ sagði Eiríkur.

Illugi ítrekaði það viðhorf að lausn kennaradeilunnar fælist í því að „ríkisvaldið komi inn og borgi þann mismun sem sveitarfélögin treysta sér ekki til þess að greiða“.

„Nákvæmlega,“ sagði Eiríkur.

„En það er ólöglegt,“ sagði Illugi.

Bjóðumst til að aðstoða sveitarstjórnir

„Nei, nei, nei, nei. Við erum bara að leiðbeina fólki sem er í sveitarstjórnum sem greinilega kann ekki og veit ekki að tekjurnar koma inn hjá ríkinu og það eru sjálfstæðir samningar milli ríkis og sveitarfélaga um þessa skiptingu. Við erum bara að bjóðast til þess að aðstoða sveitarstjórnarstigið við að ná meiri peningum frá ríkinu,“ sagði Eiríkur.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert