Réð konu sinni bana: Áverkar benda til þess að átök hafi átt sér stað

Við yfirheyrslur hjá lögreglunni í Kópavogi í gær játaði tæplega þrítugur karlmaður, Magnús Einarsson, að hafa orðið eiginkonu sinni að bana í íbúð þeirra í Hamraborg 38 í fyrrinótt. Niðurstöður krufningar liggja ekki fyrir en svo virðist sem maðurinn hafi þrengt að öndunarvegi konunnar þar til hún lést.

Síðdegis í gær úrskurðaði Héraðsdómur Reykjaness hann í gæsluvarðhald til 15. desember að kröfu lögreglu.

Konan hét Sæunn Pálsdóttir. Hún var 25 ára gömul, fædd 7. febrúar 1979. Hún starfaði við ræstingar.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að hún hafi verið kvödd að íbúðinni klukkan 3.05 vegna andláts konunnar. Þar segir að áverkar hafi verið á líki hennar sem bentu til þess að átök hefðu átt sér stað sem hefðu leitt til dauða hennar. Maðurinn var handtekinn í íbúðinni og játaði hann að hafa átt þátt í láti konunnar.

Þegar lögregla kom á staðinn voru tvö börn þeirra hjóna í íbúðinni, fjögurra ára gömul stúlka og eins árs drengur. Þeim hefur verið komið fyrir í umsjón fjölskyldu konunnar. Börnin urðu einskis vör og voru sofandi þegar lögregla kom á staðinn.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins gerði maðurinn atlögu að eiginkonu sinni í svefnherbergi þeirra og voru ekki sjáanleg ummerki um átök í íbúðinni.

Að sögn Friðriks Björgvinssonar yfirlögregluþjóns barst fyrsta tilkynning um málið frá þriðja aðila, manni sem Magnús hringdi í eftir að konan var látin og sagði honum frá því sem gerst hafði. Stuttu síðar hringdi hann sjálfur í lögreglu og greindi frá atburðum.

Tæknideild lögreglunnar í Reykjavík sér um tæknirannsóknir vegna málsins. Í gær ræddi lögreglan í Kópavogi m.a. við nágranna fólksins og kvaðst einn þeirra hafa heyrt einhvern hávaða frá íbúðinni um nóttina. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hafði hún aldrei áður verið kvödd að íbúð þeirra og maðurinn ekki áður komið við sögu lögreglu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert