Fengu lögheimili í Bláskógabyggð með dómsúrskurði

Fimm manna fjölskylda hefur með dómsúrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur fengið lögheimili í Bláskógabyggð en fjölskyldan flutti þangað í vor. Vildi sveitarstjórnin ekki samþykkja umsókn fjölskyldunnar um lögheimili þar þar sem hús þeirra væri á skipulögðu sumarhúsasvæði.

Héraðsdómur taldi hins vegar ágreiningslaust að húsnæði fjölskyldunnar uppfyllti öll skilyrði til varanlegrar búsetu í því og í lögum sé hvergi lagt bann við því að maður eigi lögheimili á landsvæði er skipulagt hafi verið sem frístundabyggð.

Fram kemur í dómnum, að í lok febrúar á þessu ári flutti fjölskyldan frá Reykjavík í hús, sem hún hafði byggt í landi Iðu. Jafnhliða flutningnum sóttu hjóninr um skólavist fyrir tvo syni sína. Bláskógabyggð tilkynnti fjölskyldunni hins vegar, að hún fngi ekki skráð lögheimili í sveitarfélaginu auk þess sem börnunum var neitað um skólavist í grunnskóla sveitarfélagsins.

Fjölskyldan óskaði þá eftir að fá skráð lögheimili í sveitarfélaginu með óstaðsetta búsetu, en hún bjó þá ekki lengur í Reykjavík og taldi sér óheimilt að hafa lögheimili skráð þar. Þessu hafnaði sveitarstjórnin.

Fjölskyldan kærði þetta til menntamálaráðuneytisins sem vísaði kærunni frá. Í kjölfar þess var óskað eftir að sveitarfélagið tæki upp ákvörðun sína um höfnun skólavistar barnanna. Þeirri málaleitan var hafnað, en samið var í apríl um bráðabirgðaskólavist fyrir drengina út það skólaár sem þá stóð yfir. Nú eru börnin þrjú á skólaskyldualdri og var þeim meinuð skólavist í grunnskólanum á yfirstandandi skólaári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert