Vara við samgöngumiðstöð fyrir innanlandsflug á Reykjavíkurflugvelli

Höfuðborgarsamtökin hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem varað er við því að borgaryfirvöld í Reykjavík gangi til samninga við ríkið um samgöngumiðstöð fyrir innanlandsflug á Reykjavíkurflugvelli. Segir í yfirlýsingunni, að þessi samgöngumiðstöð muni ekki gagnast borgarbúum og sé til þess eins fallin að festa flugstarfsemi í sessi í Vatnsmýri.

Krefjast Höfuðborgarsamtökin þess að borgayfirvöld sjái til þess að fallið verði nú þegar frá öllum skipulags- og framkvæmdaáætlunum í og við Vatnsmýri uns gert hafi verið heildarskipulag af svæðinu í fullri sátt við borgarbúa.

„Tjónið, sem hlotist hefur af flugstarfsemi í Vatnsmýri sl. 60 ár er ólýsanlegt. Gamli miðbærinn í Reykjavík er kominn að fótum fram, nærþjónusta í borginni er hrunin og rekstrargrunnur almenningssamgangna brostinn. Af völdum Reykjavíkurflugvallar hefur byggð á höfuðborgarsvæðinu splundrast og þekur nú ámóta landflæmi og evrópsk stórborg. Skv. gildandi skipulagi, sem gerir ráð fyrir flugstarfsemi á Reykjavíkurflugvelli fram yfir árið 2024, sígur enn á ógæfuhlið. Byggðin mun halda áfram að þenjast út og þynnast, til óbærilegs tjóns fyrir borgarsamfélagið," segir í yfirlýsingu samtakanna, sem segja að með skilvirkara borgarskipulagi, án flugvallar í Vatnsmýri, megi ná miklum ábata á öllum sviðum samfélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert