Íslendingar greiða fyrir flutning á 500 tonnum af vopnum til Íraks

Íslendingar munu greiða fyrir flutning á 500 tonnum af vopnum og skotfærum sem Slóvenar hafa gefið íröskum stjórnvöldum. Kostnaður við þetta er um 50 milljónir króna. Þá hafa Íslendingar lagt til 12 milljónir króna í sjóð NATO, sem greiðir ferðir og uppihald íraskra öryggissveitarmanna sem fara til þjálfunar erlendis.

Þetta kom fram hjá Davíð Oddssyni, utanríkiráðherra, í umræðum utan dagskrár á Alþingi í dag um stuðning Íslands við þjálfum íraskra öryggissveita. Einnig kom fram hjá Davíð, að Ísland hefði árið 2003 samþykkt að verja 300 milljónum króna í mannúðaraðstoð í Íraka. Þegar hefðu 100 milljónir verið lagðar fram til uppbyggingarsjóða Alþjóðabankans og Sameinuðu þjóðanna. 7 milljónir hafa verið veittar til Rauða kross Íslands vegna Íraks og verið væri að skoða kaup á gervilimum frá Össuri fyrir um 80 milljónir. Þá eru 9 milljónir eftir en verið væri að skoða sérstaklega verkefni til að styrkja stöðu kvenna í Írak.

Sagði Davíð, að þessir þættir væru ekki síður uppi á borði íslenskra stjórnvalda en þeir sem ætlað væri að styrkja öryggi í Írak, en ljóst væri að mannúðaraðstoð yrði ekki veitt, svo vit eða gagn væri í, nema öryggismál á svæðinu væru í lagi.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar, fór fram á umræðuna og spurði m.a. af hverju Ísland kysi að blanda sér í málin með þeim hætti að leggja fé til hergagnaflutninga og þjálfunar öryggissveita. Spurði Steingrímur hvers vegna ekki hefði frekar verið boðin fram aðstoð við borgaralega uppbyggingu, svo sem við að koma á vatni og rafmagni, endurbyggja skóla og heilsugæslustöðvar, útvega lyf. Eru það fleiri vopn og hermenn, sem ríkisstjórn Íslands metur að vanti mest í Írak þessa dagana? spurði Steingrímur.

Davíð Oddsson sagði, að eftir þingkosningarnar í Írak væri ljóst, að hryðjuverk þar í landi hefðu ekkert með alþjóðlega herliðið í landinu að gera heldur væri um að ræða glæpi gegn almenningi. Verja þyrfti með oddi og egg frelsisvonir írösku þjóðarinnar og því þyrfti að styrkja Íraka til að tryggja eigið öryggi. Benti Davíð á, að forsenda þess að hægt væri að kalla alþjóðlega herliðið heim frá Írak væri að Írakar geti tekið við öryggismálum og að því væru Íslendingar að stuðla ásamt öðrum NATO-ríkjum.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að Íslendingar hefðu ekkert vit á hermálum og ættu að láta aðra um vopnaflutningana og vopnabúnaðinn en sinna frekar verðugri og betri verkefnum. Sagði Þórunn að þessi fjárhagsaðstoð Íslendinga til herflutninga væri ekkert annað en popúlismi innan NATO og út í frá og ekki væri boðlegt að skattfé Íslendinga sé varið til vopnaflutnings og þjálfunar hermanna. Íslendingar hefðu verkefnaval og gætu valið verkefni við hæfi.

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, sagðist hafa fullan skilning á að Vinstri-grænir væru andvígir því að Íslendingar kæmu að verkefnum NATO en hún hefði ekki átt von á að Samfylkingin væri þeim einnig andvíg. Sagði Siv, að það væri algert bull að Íslendingar hafi ekki vit á þessu verkefni enda hefðu þeir flutt allskonar vörur með flugvélum sínum. Sagði Siv, að Íslendingar ættuað vera stoltir af því að aðstoða Íraka við að verja sitt eigið öryggi og stuðla að lýðræðisþróun þar.

Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, sagði að flokkurinn styddi aðild Íslands að NATO og hefði alltaf gert. Stundum yrði að gera fleira en gott þætti og svo væri nú. Menn hlytu að vera hugsi yfir því að Íslendingar taki þátt í vopnaflutningum og gera þann fyrirvara að tryggt væri að umræddar öryggissveitir yrðu ekki árásarsveitir. Sagðist Magnús telja, að frekar hefði átt að veita fénu í mannúðarstarf í Írak en ef það er svo að NATO vill taka þátt í þjálfun öryggissveita þá yrði svo að vera.

Ögmundur Jónasson, VG, sagði að aðkoma Íslands að innrásinni í Írak væri óafsakanleg, Sagðist Ögmundur vilja mótmæla því að tveir ráðherrar skuli sífellt lofa fjárframlögum til NATO án þess að fá til þess heimild Alþingis. Þá væri hægt að láta peninga renna til fleiri svæða en Íraks en meginkrafan væri sú, að Írakar fái sjálfir að njóta olíuauðlinda sinna.

Sólveig Pétursdóttir, Sjálfstæðisflokki, sagði að röðin væri komin að Íslendingum og öll 26 aðildarríki NATO hefðu heitið stuðningi við uppbygginguna í Írak. Sagði Sólveig, að Írak tryggði best eigið öryggi með eigin öryggissveitum en til að svo geti orðið þurfi að leggja þeim lið við uppbyggingu sveitanna.

Dagný Jónsdóttir, Framsóknarflokki, sagði að þingmenn VG væru farnir að ræða hervæðingu Íslands á ný eftir örlítið hliðarspor. Sagði Dagný, að það væri skylda Íslendinga að hjálpa til við uppbyggingu Íraks. Írakar vildu lýðræði og lýðræði krefðist öryggis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert