Fischer segir skákina „steindauða“ og ætlar ekki að setjast aftur að tafli

Fischer var leiddur beint úr flugvélinni út í bíl öryggislögreglunnar …
Fischer var leiddur beint úr flugvélinni út í bíl öryggislögreglunnar á Kastrup. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson

Bobby Fischer sagði að sér liði loks sem frjálsum manni er hann var kominn til Kaupmannahafnar tæpum sólarhring eftir að honum var sleppt úr innflytjendabúðunum í Ushiku norður af Tókýó. Hann sagðist við Fréttavef Morgunblaðsins (mbl.is) þó ekki ætla að setjast aftur að skákborði. „Skákin er steindauð, fyrir löngu,“ sagði hann.

Sæmundur Pálsson, vinur Fischers, sagði að það hafi verið fagnaðarfundir er þeir hittust á flugvellinum í Kaupmannahöfn. „Ég er afskaplega ánægður með að hann skuli laus úr prísundinni í Japan,“ sagði Sæmundur þar sem þeir Fischer sátu í leigubíl fyrir utan flugstöðina á leið til Malmö í Svíþjóð þar sem einkaþota á vegum Stöðvar-2 og kvikmyndafélags Sigurjóns Sighvatssonar beið þeirra.

Fischer var í mun að lýsa óánægju sinni er blaðamaður mbl.is og fréttamaður Sjónvarpsins náðu á hann í leigubílnum. „Þetta var ekkert nema mannrán, mannrán fært í lagalegan búning. Og hræsni japönsku stjórnarinnar er yfirgengileg. Hún lætur stöðugt hamra á því í útvarpi og sjónvarpi sem við höfðum í búðunum að Norður-Kóreumenn hefðu rænt japönskum þegnum um dagana með ólöglegum hætti.

Þeir hafa hins vegar gerst sekir um nákvæmlega sama hlut með ráninu á mér. Hræsni þeirra er tröllvaxin.“

- Finnst þér þá sem þér hafi verið bjargað úr prísund? „Já, einmitt. Þetta var ekkert annað en mannrán sem átti sér enga lagalega stoð. En nú get ég hafið nýtt líf,“ sagði Fischer. - Brátt verður þú á Íslandi. Hvað ætlarðu að taka þér fyrir hendur þar? „Byrja á því að slappa af. Síðan hefst ég handa aftur við klukkuna mína. Ég þarf að ljúka henni,“ sagði Fischer sem unnið hefur að gerð nýrrar klukku til notkunar við skákborðið. Hann telur að hún eigi eftir að bylta skákíþrótinni fáist hún notuð til keppni.

- Hvernig var að hitta Sæma aftur? „Stórkostlegt, frábært,“ sagði heimsmeistarinn fyrrverandi og lifnaði allur við en til Íslands hefur hann ekki komið frá einvíginu við Borís Spasskí árið 1972 fyrr en nú. „Þetta hefur verið alltof langur tími sem við höfum ekki sést, 33 ár.“ - Munum við sjá þig aftur við skákborðið? „Nei, alls ekki. Skákin er búin að vera, hún hefur verið steindauð mjög lengi. Það er öllu hagrætt í henni. Ég átti stóra skrá varðandi það um fyrsta einvígi Karpovs og Kasparovs en gyðingar stálu henni frá mér. Einnig geymdi móðir mín bækur og efni en gyðingar virðast hafa stolið þeim líka.“ - Muntu dveljast til langframa á Íslandi? Hefurðu gert upp hug þinn í þeim efnum?

„Ekki hvern einasta dag ársins og ekki hvert einasta ár. En ég ætla mér að dveljast þar heilmikið, vissulega,“ sagði skákmeistarinn.

Fischer sagðist afar þakklátur Íslendingum fyrir að koma sér til hjálpar. En bætti við að hann væri leiður yfir því að tilraunir hans til að fá sig lausan úr fangelsi hafi valdið Íslandi ama. „Ég ætlaði ekki að þröngva mér upp á ykkur til þess að losna úr fangelsinu og ef þið verðið leiðir á mér getið þið alltaf tekið ríkisborgararéttinn af mér aftur.

En það verður að láta hart mæta hörðu. Þeir brúkuðu bull til að halda mér föngnum og því þurfti dugði engin blíðmælgi í baráttunni við að fá mig lausan. Allt sem Japanir höfðu fram að færa var þvættingur og gjörðir þeirra ólögmætar; fáránleiki allt saman.“

-Þú hefur látið þér vaxa skegg í varðhaldinu, ert eins og víkingur? „Það mun fjúka. Í fangelsi missir maður áhuga og nennu til að hafa fyrir hlutum á borð við að raka sig,“ sagði Fischer að lokum.

Um tveir tugir danskra fjölmiðlamanna biðu Fischers í biðsalnum við …
Um tveir tugir danskra fjölmiðlamanna biðu Fischers í biðsalnum við flugvallarhliðið sem þota hans kom að. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert