Íslenskir stafir orðnir gjaldgengir í lénnöfnum á Netinu vegna stuðnings vafra: Allir geta skráð íslenskar útgáfur þekktra lénnafna

Lén á Netinu hafa fengist skráð með séríslenskum stöfum frá 1. júlí í fyrra. Með séríslenskum stöfum er átt við á, é, í, ó, ú, ý, ð, þ, æ og ö. Lén á borð við morgunblaðið.is, hæstiréttur.is og rúv.is eru því orðin gjaldgeng.

Hlaða þarf niður sérstöku forriti á tölvur til að algengir vafrar á borð við Internet Explorer styðji íslensku stafina í lénnöfnum en t.d. Firefox-vafrinn styður þá nú þegar.

Annarra að dæma um réttmæti

Internet á Íslandi (ISNIC) skráir lén með endingunni .is. Að sögn Helga Jónssonar framkvæmastjóra byrjaði ISNIC að taka við skráningum léna með íslenskum stöfum í lénnöfnum hinn 1. júlí í fyrra. Fram að því var einungis hægt að nota stafi úr svonefndri ASCII-stafatöflu. "Þeir sem áttu lén sem var hægt að varpa yfir í íslenskt nafn nutu forgangs í hálft ár að skrá slík lén," sagði Helgi. Hann segir að lénin með íslensku stöfunum séu ný lén og því seld sem slík. Ekki sé í verkahring ISNIC að kanna hvort verið er að skrá lénnöfn sem bera sömu heiti og skráð vörumerki eða annað.

"Við skráum lén á ábyrgð þess sem sækir um," sagði Helgi. "Við erum ekki dómstóll eða neitt þvílíkt í svona málum." Hann sagði að umsækjendum léna væri bent á það í umsóknarferlinu að kanna vel hvort heiti lénsins, sem sótt væri um, væri líkt lénnafni sem þegar væri skráð. Hugsanlega gæti gengið gegn samkeppnislögum að sækja um slík lén. "Þetta settum við inn í samráði við Samkeppnisstofnun á sínum tíma. Það eru mýmörg dæmi um það í íslenskunni að hægt er að hafa lén í ýmsum föllum og með eða án greinis. Það er matsatriði í hvert sinn hvort lén er líkt einhverju léni sem fyrir er og hvort það er þekkt lén."

Aðspurður sagðist Helgi ekki sjá ástæðu til að breyta söluferli léna. "Skráningarferlið er rafrænt. Við viljum ekki hverfa aftur til þess kerfis að við séum einhvers konar dómstóll sem ákveður hver geti sótt um tiltekið lén. Slíkar aðferðir við skráningu léna hafa hvarvetna verið lagðar af vegna þess að ókostir hafa reynst vega þyngra en kostir. Ef við færum út í það væri sennilega ekki hægt að finna neina algilda reglu þar um.

Fólk sækir um lén á eigin ábyrgð. Síðan er það annarra en okkar að meta hvort lén hafi lent hjá réttmætum eiganda eða ekki. Það er fag út af fyrir sig," sagði Helgi.

Helgi segir að töluvert hafi verið skráð af lénum með íslenskum stöfum, meðan forkaupsréttur lénaeigenda gilti til síðustu áramóta, en hafði ekki tiltækan fjölda þeirra. Erfitt væri að segja til um hvað menn væru áfjáðir í að skrá séríslensk lén við hlið þekktra léna.

ISNIC bendir á það á heimasíðu sinni að lén með séríslenska stafi hafi enn sem komið er mjög takmörkuð not. Enn vanti stuðning við slík sértákn í almennan netsamskiptahugbúnað. Til dæmis sé ekki hægt að nota séríslenska stafi í netföng og þar með erfiðleikum bundið að senda eða taka á móti tölvupósti komi séríslensk tákn fyrir í lénnafnshluta netfangs.

Vegna ófullkominnar virkni léna, sem innihalda séríslenska stafi, hefur stjórn ISNIC ákveðið að veita 50% afslátt af stofngjaldi og árgjaldi slíkra léna frá 1. jan. 2005 til ársloka 2006. Venjulegt stofngjald léns er 12.450 krónur og innifelur það árgjald fyrsta árið. Árlegt endurnýjunargjald vegna léns er 7.918 krónur.

Aðspurður sagðist Helgi ekki hafa orðið var við mótmæli lénaeigenda vegna þess að einhverjir óviðkomandi hefðu eignast lén með íslenskum rithætti lénaheita þeirra. Hann hafði séð að athygli var vakin á þeim möguleika og taldi það hafa ýtt við mönnum. "Það hafa ýmsir verið að skrá íslensk lén nú eftir páskana. Þeir hafa séð að þetta væri eitthvað sem þeir ættu að gera, því einhvern tímann verða þessi lén fullgild. Það er hægt að fletta upp heimasíðum í velflestum vöfrum, en erfiðara að nota íslensk heiti í netföngum."

Helgi taldi að íslensk heiti yrðu ekki gjaldgeng í tölvupóstföngum á næstunni.

Stendur í vegi íslenskunnar

Hermann Páll Jónsson, framkvæmdastjóri Netvistunar ehf. í Reykjavík, er ósáttur við að Internet á Íslandi (ISNIC) skuli selja hverjum sem er lénnöfn sem eru íslensk útgáfa lénnafna þegar þekktra léna. Til að vekja athygli á málinu keypti Hermann 7. mars síðastliðinn lénin morgunblaðið.is, en morgunbladid.is er í eigu Morgunblaðsins, ísland.is, en Island.is er í eigu forsætisráðuneytisins, rúv.is, en ruv.is er í eigu Ríkisútvarpsins, vísir.is, en visir.is er í eigu 365 prentmiðla, reykjavík.is, en reykjavik.is er í eigu Reykjavíkurborgar. Hermann hefur sett upp heimasíðu til að vekja athygli á málinu og má nálgast hana gegnum lénið www.netvistun.is, eða einhver ofantalinna léna með íslensku stöfunum.

Hermann telur að það hafi farið framhjá mörgum þegar ISNIC fór að selja lén með íslenskum stöfum 1. júlí í fyrra. Málið hafi fyrst og fremst verið kynnt á heimasíðu ISNIC. Eins segist hann vita af eigendum léna, rituðum með alþjóðlegum hætti (þ.e. ASCII-stafatöflu), sem blöskraði þessi framgangsmáti ISNIC og neituðu að kaupa sérstaklega lén með íslenskum rithætti nafna sem þeir töldu sig þegar eiga. Í einhverjum tilvikum telur Hermann að vitneskja um þessa nýjung hjá ISNIC hafi stoppað í tölvudeildum fyrirtækja og ekki komist til stjórnenda þeirra. Hann hefur talað við stjórnendur fyrirtækja og ríkisstofnana sem vissu ekki af þeim möguleika að skrá lén með íslenskum rithætti.

Hermann bendir á að þrátt fyrir að nöfn léna hafi verið rituð án íslensku stafanna til 1. júlí í fyrra hafi skapast sú venja að tala um íslensk lén samkvæmt íslenskum heitum þeirra. Fólk segi "Vísir.is", en ekki "visir.is". Það segi "Flugfélag.is", en ekki "flugfelag.is" o.s.frv. "Flugfélag Íslands stendur frammi fyrir því nú að einhver maður í Kópavogi á lénið flugfélag.is," sagði Hermann.

Hermann sagðist hafa haft samband við Internet á Íslandi síðastliðið sumar og lýst furðu sinni á því að lénaeigendum væri stillt upp við vegg. Annaðhvort keyptu þeir lén með íslenskum rithætti lénnafna í þeirra eigu eða nýju lénin yrðu seld einhverjum öðrum. "Þá fékk ég þau svör að svona væri þetta bara."

Hermann telur að forkaupsréttur eigenda léna að íslenskri útgáfu lénnafna þeirra hefði átt að vera varanlegur. Þannig hefði Flugfélag Íslands átt víst að öðrum yrði ekki selt lénið flugfélag.is. "Hvernig er hægt að markaðssetja þetta sem nýtt lén," spurði Hermann. "Þegar markaðurinn fer að spyrja eftir íslenska rithættinum munu núverandi eigendur léna hvort eð er kaupa lénin með íslenska rithættinum."

Hann telur málið mikilvægt, því það hafi áhrif á hvernig Netið kemur til með að þróast hér á landi. "Viljum við nota íslensku eða ekki? Ég fæ ekki séð að ritháttur léna geti þróast yfir á íslensku, ef ekki eru bein tengsl á milli þekktra léna með alþjóðlega rithættinum og lénnafna þeirra með íslensku stöfunum. Ef það verður ekki stöðvað að selja óviðkomandi aðilum íslenskar útgáfur nafna þekktra léna eigum við á hættu að íslensku lénin verði ekki notuð sem skyldi."

Hermann hefur haldið mörg námskeið fyrir byrjendur í netnotkun. Þegar hann segir nemendum sínum að fara inn á vefi Ríkisútvarpsins, Morgunblaðsins eða Vísis sé mjög algengt að þeir skrifi lénaheitin með íslenskum stöfum. Við núverandi aðstæður lendi þeir inni á vef Netvistunar. Hættan á misskilningi og misnotkun lénnafna muni aukast eftir því sem fleiri vafrar styðji íslensku stafina.

Hermann telur að nú standi lénaeigendur, sem misst hafa af íslenskaðri útgáfu af lénheitum sínum, frammi fyrir því að reyna að verja sinn rétt frammi fyrir dómstólum eða jafnvel að kaupa íslensku lénin dýrum dómum. Á vef Netvistunar er safnað undirskriftum gegn því hvernig staðið er að sölu léna með íslenskum rithætti. Að sögn Hermanns höfðu um 100 aðilar skráð sig þar sl. föstudag þar á meðal margir talsmenn umsvifamikilla léna.

Lagaákvæði um auðkenni

SIGURJÓN Heiðarsson, lögfræðingur hjá Samkeppnisstofnun, segir að mál þar sem nýskráð lén eru svo lík eldri lénum að misskilningi og skaða gæti valdið hafi verið afgreidd á grundvelli 25. gr samkeppnislaga (8/1993) þar sem segir. "Óheimilt er að nota í atvinnustarfsemi firmanafn, verslunarmerki eða því líkt sem sá hefur ekki rétt til er notar eða rekur atvinnu undir nafni sem gefur villandi upplýsingar um eignarrétt eða ábyrgð atvinnurekanda. Enn fremur er sérhverjum bannað að nota auðkenni, sem hann á tilkall til, á þann hátt að leitt geti til þess að villst verði á því og öðru einkenni sem annað fyrirtæki notar með fullum rétti."
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert