Gunnar Birgisson: Héðinsfjarðargöng vitlaus framkvæmd

Héðinsfjarðargöngin eru ein vitlausasta framkvæmdin sem ég hef heyrt um í langan tíma, sagði Gunnar Birgisson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, í umræðum um samgönguáætlun til næstu fjögurra ára, sem fram fer á Alþingi, þessa stundina.

Gunnar gerði vegaáætlun sérstaklega að umtalsefni. Hann sagði fjármunum til nýframkvæmda í vegamálum misskipt milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. Mun meira fjármagni væri varið til framkvæmda á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, þrátt fyrir að mun fleiri byggju á höfuðborgarsvæðinu.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokks, gagnrýndi einnig vegaáætlunina í umræðunum í dag. Sagði hann að ríkisstjórnin þyrfti ekki að draga úr vegaframkvæmdum á næstu árum. Hann sagði ennfremur að það gengi ekki fyrir ríkisstjórnina að lofa kjósendum vegaframkvæmdum fyrir kosningar en skera þau loforð niður eftir kosningar. Beindi hann því til ríkisstjórnarinnar að hætta slíkum skollaleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert