6,5% af ESB-gerðum tekin inn í EES-samninginn síðasta áratug

Samkvæmt upplýsingum EFTA-skrifstofunnar hafa 2527 tilskipanir, reglugerðir og ákvarðanir verið teknar inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið á síðasta áratug og er það um 6,5% af heildarfjölda Evrópusambandsgerða á tímabilinu.

Þetta kemur fram í svari utanríkisráðherra á Alþingi við fyrirspurn Sigurðar Kára Kristjánssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Þar kemur fram að inn í EES-samninginn séu aðeins teknar þær gerðir sem falli undir gildissvið samningsins. Gildissvið EES-samningsins sé bundið við hið svonefnda fjórþætta frelsi (frjáls vöruviðskipti, frjálsa þjónustustarfsemi, frjálsar fjármagnshreyfingar og frjálsa för launþega) og þau svið önnur sem beinlínis eru talin varða fjórþætta frelsið (samkeppni, félagsmál, umhverfismál, neytendavernd, hagskýrslugerð og félagarétt).

Fram kemur að langstærstur hluti þeirra gerða, sem samþykktar eru af Evrópusambandinu, varði framkvæmd sameiginlegrar landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnu þess en einnig sé fjöldi gerða samþykktur á ári hverju sem varða framkvæmd utanríkisviðskiptastefnu þess, þ.m.t. tollamál.

Svar utanríkisráðherra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert