Þetta átti að vera leynileg heimsókn

Boris Spasskí, Alex Títomírov, rússnesk-bandaríski kaupsýslumaðurinn, og Einar S. Einarsson, …
Boris Spasskí, Alex Títomírov, rússnesk-bandaríski kaupsýslumaðurinn, og Einar S. Einarsson, yfirgefa Flugstöð Leifs Eiríkssonar í gær.

Boris Spasskí vildi lítið segja um fyrirhugaðan fund sinn með Bobby Fischer þegar Morgunblaðið náði tali af honum á Keflavíkurflugvelli í gær. „Þetta er mitt mál, ég vil ekki segja neitt um það núna,“ sagði hann. Kaupsýslumaðurinn Alex Titomirov var ekki heldur viðræðugóður en fékkst þó til að staðfesta að hugsanlega myndi hann með fjárframlagi styrkja einhvern „skákviðburð“ með Bobby Fischer. Joel Lautier, forseti Alþjóðasambands skákmanna, var jafn ófús til viðræðna. „Þetta átti að vera leynileg heimsókn. Ég mun geta sagt þér meira á morgun,“ sagði hann. Honum varð þó alls ekki að ósk sinni því um kvöldmatarleytið hafði heimsókn Spasskí kvisast út og fljótlega fjölgaði fjölmiðlamönnum á Hótel Loftleiðum verulega.

Þremenningarnir komu til Íslands frá París þar sem Spasskí hefur verið búsettur áratugum saman og frá Keflavíkurflugvelli héldu þeir rakleiðis á Hótel Loftleiðir þar sem Fischer býr. Um kvöldið áttu þeir Fischer og Spasskí stuttan fund á hótelsvítu Fischers og þar féllst Fischer endanlega á að hitta Titomirov og héldu fundahöld því áfram fram eftir kvöldi.

Að sögn Einars S. Einarssonar, formanns stuðningsmannahóps Fischers, hafði Joel Lautier samband við hann að fyrra bragði fyrir nokkru og ræddi um hvort hægt væri að koma á fundi með Titomirov um hugsanlega endurkomu Bobbys Fischers. Ekki væri ljóst hvernig staðið yrði að slíku skákmóti en það yrði á heimsmælikvarða. Einar sagði að þeir Fischer og Spasskí hefðu ekki hist frá því þeir tefldu í Svartfjallalandi á sínum tíma en verið í símasambandi stöku sinnum, m.a. hefði Fischer hringt í Spasskí úr fangabúðunum í Japan.

Nánar er fjallað um í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert