Kostnaðaráætlun OR vegna lóða um 300 milljónir

Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur á Bæjarhálsi.
Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur á Bæjarhálsi.

Orkuveita Reykjavíkur segir að ekki liggi fyrir hver endanlegur kostnaður verður við frágang á lóðum fyrirtækisins við Réttarháls og Bæjarháls, en endanleg kostnaðaráætlun við allar lóðirnar þrjár sé um 300 milljónir króna á núvirði.

Í fréttum Sjónvarpsins var sagt að upphafleg fjárhagsáætlun við frágang lóðanna væri vel innan við 100 milljónir. Guðmundur Þóroddsson, forstjóri OR, sagði í viðtali við Sjónvarpið að heildarkostnaður við frágang lóðarinnar verði líklega nálægt 250 miljónum króna.

Í tilkynningu sem Guðmundur sendi frá sér í dag segir að endanleg kostnaðaráætlun við allar lóðirnar þrjár við Réttarháls og Bæjarháls, þar á meðal norðurhús við Réttarháls 4 þar sem er aðstaða vinnuflokka og verkstæða, sé um 300 milljónir króna á núvirði. Framkvæmdir standi enn yfir við lóðirnar svo ekki liggi fyrir hver endalegur kostnaður verði.

„Þó að kostnaður kunni að fara eitthvað fram úr áætlun er ljóst að það er á miklum misskilningi byggt, að hann fari 150% fram úr áætlun eins og haldið hefur verið fram. Lóðirnar þrjár eru um 4,3 hektarar (43.000 fm) að stærð eða jafn stórar og 60 einbýlishúsalóðir. Gert er ráð fyrir á fimmta hundrað bílastæðum. Orkuveita Reykjavíkur hefur haft það sem stefnu að mannvirki hennar séu fyrirtækinu og íbúum höfuðborgarsvæðisins til sóma og lóðir séu snyrtilegar og vel hirtar. Þessi stefna hefur reynst vel og ekki ástæða til að breyta henni," segir síðan í tilkynningu OR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert