Frelsisnotendur hjá Og Vodafone geta hringt og sent SMS þegar inneign klárast

Símafélagið Og Vodafone hefur hleypt af stokkunum nýrri þjónustu sem nefnist S.O.S og gerir viðskiptavinum í svonefndu Frelsi mögulegt að hringja eða senda SMS þótt inneign þeirra klárist.

Í tilkynningu segir, að S.O.S sé í raun samheiti yfir nokkra þjónustuliði fyrir Frelsisnotendur sem hafi klárað inneign sína. Í upphafi verði tveir þjónustuliðir í boði: annars vegar Lán og hins vegar Hringdu!

Þjónustan Lán geri Frelsisnotendum kleift að fá 100 króna lán þegar inneign klárast með því að senda SMS skilaboðin SOS LAN í síma 1400. Lánið er dregið af næst þegar viðskiptavinur fyllir á Frelsið. Þjónustan Hringdu! veiti Frelsisnotendum möguleika á því að senda SMS án endurgjalds á hvern sem er og biðja viðkomandi um að hringja í sig. Frelsisnotandi sendir SMS skilaboðin SOS og símanúmer þess sem á að fá skilaboðin í síma 1400.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert