Mótmælendur fordæma aðgerðir lögreglu og ætla að mótmæla áfram

Skilti á Kárahnjúkum sem málað hefur verið á.
Skilti á Kárahnjúkum sem málað hefur verið á. mbl.is

Mótmælendur við Kárahnjúka fordæma aðfarir lögreglu við mótmæli þar í morgun og segja að þeir muni ekki hætta að mótmæla þrátt fyrir aðgerðir lögreglu. Segja þeir í yfirlýsingu að ein kona í hópi þeirra hafi sætt kynferðislegri árás af hendi lögreglumanna og að ráðist hafi verið á annan mótmælanda á meðan honum var haldið.

Segir í yfirlýsingu þeirra að 24 mótmælendur hafi farið inn á stíflusvæðið við Kárahnjúka og stöðvað vinnu í fimm klukkutíma í morgun. Meðal annars hafi nokkrir mótmælendur stöðvað vinnuvélar með því að hlekkja sig við þær.

Segja mótmæli hafa verið friðsamleg þar til lögregla kom

Mótmælin hafi verið friðsamleg og samskipti við verkamenn vinaleg þar til lögregla kom á svæðið. Hún hafi skipað mönnum á vinnuvélunum sem fólkið var hlekkjað við að setja vélarnar í gang. Mikil hætta hafi skapast vegna þessa þar sem lögreglumennirnir og bílstjórarnir hafi ekki talað sama tungumál.

Lögregla hafi neitað að tala við mótmælendur og byrjað að færa þá af svæðinu með valdi. Mótmælendur hafi reynt að stofna til samræðna en lögreglumenn hafi ekki hlustað á þá.

Segja þeir í yfirlýsingunni að ein kona í hópi þeirra hafi sætt kynferðislegri árás af hendi lögreglumanna og að ráðist hafi verið á annan mótmælanda á meðan honum var haldið.

Þeir segja að þeir ætli ekki að láta aðgerðir lögreglu stöðva sig í að mótmæla þungaiðnaði á Íslandi. Íslensk yfirvöld beri ábyrgð á því að lögreglumenn skapi ekki aðstæður við stífluna þar sem líf séu í hættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert