Fjármálaráðherra sáttur við söluverð Símans

Geir H. Haarde fjármálaráðherra.
Geir H. Haarde fjármálaráðherra. mbl.is

Geir H. Haarde fjármálaráðherra segist mjög ánægður með hvernig til hefur tekist með sölu Símans en fyrir stundu var ákveðið að taka tilboði frá hópi fjárfesta sem kallar sig Skipti ehf, í fyrirtækið. Geir segist sáttur við verðið og segir ánægjulegt að hópur innlendra fjárfesta sé svo öflugur að geta boðið þetta verð.

„Ég er mjög ánægður með hvernig ferlið hefur þróast og að við skulum fá boð upp á 66,7 milljarða í þetta ágæta fyrirtæki og tel að það sé ánægjulegt að það skuli vera hópur innlendra fjárfesta sem er svo öflugur að geta boðið þetta hátt verð,“ segir Geir.

„Já, ég er sáttur við verðið,“ segir hann þegar hann er spurður og bendir á að þetta sé ríflega milljarður dollara.

Þegar hann var spurður hvort verðið væri í samræmi við það sem hann bjóst við sagði hann: „Það var engin leið til að segja til um hversu hátt verðið yrði fyrirfram, ýmsar tölur voru nefndar, bæði hærri og lægri og á endanum er það markaðurinn sem ræður verðinu. Ekkert fyrirtæki er verðmætara en það sem einhver er tilbúinn til að borga fyrir það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert