Myndbandið

">

Myndband af væntanlegu tónlistarhúsi og ráðstefnumiðstöð

Teikning af væntanlegu tónlistar- og ráðstefnuhúsi.
Teikning af væntanlegu tónlistar- og ráðstefnuhúsi.

Gert hefur verið myndband, sem sýnir væntanlegt tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð sem á að rísa við Austurhöfnina í Reykjavík. Tilkynnt var í dag að gengið verði til samninga við Portus Group, sem er í eigu Landsafls hf., Nýsis hf. og Íslenskra aðalverktaka hf. um verkefnið. Útlit hússins er að miklu leyti verk listamannsins Ólafs Elíassonar.

Samkvæmt tillögu Portus Group verður tónlistar- og ráðstefnubyggingin austarlega á byggingarlóðinni. Að hluta til stendur húsið á landfyllingu, sem gerð verður í Austurbugtinni þar sem hafnarbakkinn verður færður fram. Samanlögð stærð tónlistarhússins og ráðstefnumiðstöðvarinnar er um 23.000 fermetrar og mun byggingin m.a. rúma tónleikasal sem tekur 1800 manns í sæti, tvískiptanlegan ráðstefnusal með 750 sætum, kammermúsíksal með 450 sætum og minni sal/aðstöðu fyrir 180-200 áheyrendur. Einnig er gert ráð fyrir hótelbyggingu sem verður álíka stór og tónlistarhúsið og ráðstefnumiðstöðin og er hún staðsett á vesturhluta lóðarinnar.

Samkvæmt upplýsingum frá Portus Group er meginhugmyndin með byggingunni að skapa kristallað form með fjölbreyttum litum sem sóttir eru í nærliggjandi náttúru og gefur þeim er þess nýtur síbreytileg tilfinningaleg áhrif. Byggingin stendur ein og sér eins og stöpull, sem endurspeglar breytingar í himinblámanum bæði hvað varðar þéttleika og litbrigði, eftir veðri, árstíma og mismunandi tímum sólarhringsins. Sólskinið muni auka á áhrif minnstu einkenna í ljósi og skuggum og byggingin muni endurspegla glóandi hraunbreiður þegar hún lýsir gullrauðum loga en jökla þegar hún verður ísblá.

Áhersla er lögð á sýnileika byggingarinnar. Hún er vel afmörkuð frá miðbænum, stakstæð og með glæsilegri framhlið. Þakið gegnir stóru hlutverki í ásýnd hússins hvort heldur er séð úr lofti, frá Arnarhóli eða Hallgrímskirkju.

Í húsinu er gert ráð fyrir svölum til allra átta á mismunandi hæðum. Stórar þaksvalir eru á milli tónlistarsalarins annars vegar og æfingar og ráðstefnusalar hins vegar. Svalirnar geta nýst fyrir listasýningar og tónlistarviðburði auk þess að almenningi gefst kostur á að njóta sérstaklega heillandi útsýnis yfir flóann og borgina.

Skipulag byggingarinnar er mjög skýrt þar sem þrír salir liggja hlið við hlið, tónleikasalur, æfingasalur og ráðstefnusalur, sem einfaldar allt flæði innanhúss. Við hönnun er lögð áhersla á að húsið geti hvort sem er nýst allt til stærri viðburða eða að hægt verði að skilja ráðstefnurýmin algerlega frá öðrum rýmum þannig að mismunandi starfsemi fari fram á sama tíma í húsinu, án innbyrðis truflunar.

„Léttir og smekklegir veggir og loft hönnuð af Ólafi Elíassyni umlykja forrými tónleikasalarins og þar hellast yfir litir, ljós og skuggar á daginn, en séð utan frá á kvöldin sem ljósalist með hátíðlegum blæ. Í fjögurra hæða fordyri tónlistarhússins er ljósalist Ólafs Elíassonar varpað á suðurvegginn og loftið. Frá svölunum er frábært útsýni yfir miðbæinn og í norðvestur að Snæfellsjökli og hnígandi sól í kvöldroðanum. Frá austurhlið fordyrisins er útsýni yfir Esjuna og Sæbraut," segir í kynningarefni frá Portus Group.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert