Sólarhringsvakt við Kárahnjúka kostaði 20 milljónir

Frá búðum mótmælenda við Kárahnjúka í sumar.
Frá búðum mótmælenda við Kárahnjúka í sumar. mbl.is/Árni Torfason

Óskað er eftir 38 milljóna króna aukafjárveitingu til embættis ríkislögreglustjóra í frumvarpi til fjáraukalaga, sem lagt hefur verið fram á Alþingi.

Rúmlega helmingur upphæðarinnar, eða 20 milljónir, er vegna þess að lögreglan hefur þurft að viðhafa sólarhringsvakt við vinnusvæði álversframkvæmda á Austfjörðum til að afstýra skemmdarverkum og koma í veg fyrir að vinna verktaka verði stöðvuð með ólögmætum aðgerðum.

Ekki var gert ráð fyrir þessum útgjöldum við gerð fjárlaga 2005 og segir í fjáraukalagafrumvarpinu, að ekki sé svigrúm til þess að mæta kostnaðarauka af fjárveitingum ársins. Embætti Ríkislögreglustjóra muni sinna uppgjöri til þeirra embætta sem lögðu til aukamannskap í þetta verkefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert