Vilja lækka matarskattinn í 7% og hækka persónuafslátt

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar.

Samfylkingin telur að lækka eigi virðisaukaskatt á matvæli úr 14% í 7% og hækka persónuafslátt í skattkerfinu í stað tekjuskatts- og hátekjuskattslækkunar ríkisstjórnarinnar um áramót, þar sem þessar aðgerðir komi öllum til góða, en mest þeim sem hafi lágar eða meðaltekjur, auk þess sem slíkar aðgerðir vinni gegn verðbólgu.

Þetta kom meðal annars fram í ávarpi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, á fundi í Samfylkingarfélaginu í Reykjavík á laugardag. Hún sagði einnig að auka ætti aðhald í ríkisfjármálum og stefna að því að reka ríkissjóð með afgangi sem næmi 2% af vergri landsframleiðslu og taka til athugunar hækkun á fjármagnstekjuskattinum.

Ingibjörg sagði að tillögur Samfylkingarinnar hefðu það að markmiði að draga úr spennu í hagkerfinu, ynnu gegn verðbólgu og bættu kjör þeirra sem lægst hefðu launin og það væri þeirra innlegg í þær kjaraviðræður sem framundan væru.

Fram kom að lækkun virðisaukaskatts á matvæli kostar um fjóra milljarða króna og lækkar vísitölu neysluverðs um tæpt 1% og hefur þannig áhrif á verðbólguna til lækkunar. Lagt er til að um tveimur milljörðum til viðbótar verði varið til hækkunar persónuafsláttarins, en kostnaður vegna skattalækkana ríkisstjórnarinnar er talinn nema um sex milljörðum króna.

Ingibjörg sagði að ójöfnuðurinn hefði aukist hröðum skrefum í tíð ríkisstjórnarinnar og nefndi sem dæmi að lífeyrisgreiðslur hefðu verið aftengdar lægstu launum 1995. Hefði það ekki verið gert væru þær 14 þúsund kr. hærri á mánuði í dag. Þá hefðu skattleysismörkin ekki verið látin fylgja verðlagi og benti á að samkvæmt GINI-stuðlinum svonefnda hefðu ráðstöfunartekjur ríkasta fimmtungs þjóðarinnar aukist tvöfalt meira en ráðstöfunartekjur fátækasta fimmtungsins.

Nánar í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert