Bubbi Morthens stefnir útgefanda Hér og nú

Bubbi Morthens.
Bubbi Morthens. Morgunblaðið/Sverrir

Bubbi Morthens hefur stefnt 365 prentmiðlum og Garðari Erni Úlfarssyni, fyrrverandi ritstjóra tímaritsins Hér og nú, vegna umfjöllunar og myndbirtingar í blaðinu í sumar. Bubbi fer fram á að ummæli sem fram koma í fyrirsögnum í blaðagreininni verði dæmd dauð og ómerk og að hann fái 20 milljónir króna í miskabætur.

Í samtali við Morgunblaðið segir Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður Bubba, að stefnt sé fyrir ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. Á forsíðu Hér og nú í júní sl. var mynd af Bubba þar sem hann sat inni í bíl og reykti sígarettu. Inni í blaðinu voru fleiri myndir af svipuðum toga af Bubba með sömu fyrirsögn og á forsíðunni: "Bubbi fallinn." Að sögn Sigríðar Rutar er fyrirsögnin til þess fallin að blekkja þá sem hana sjá. „Fólk tengir fyrirsögnina við það að Bubbi sé aftur fallinn í dópneyslu, frekar en hann sé fallinn á einhverju meintu sígarettubindindi," segir Sigríður Rut og bendir á að málið snúist einnig um réttinn til eigin mynda. „Þarna voru myndir teknar úr launsátri og án vitundar og samþykkis stefnanda og birtar án hans samþykkis og vitundar."

Spurð um upphæð skaðabótakröfunnar svarar Sigríður Rut: „Ástæðan fyrir því að hún er svona há er að útgefandi Hér og nú er mjög stór og sterkur aðili á fjölmiðlamarkaði með ennþá sterkara móðurfyrirtæki á bak við sig. Til þess að svona mál hafi eitthvað að segja og hafi einhver varnaðaráhrif þá þarf að koma í veg fyrir að fjölmiðlar græði á því að brjóta á réttindum annarra. Sökum þess þýðir ekkert að hafa bótakröfuna lága, því það myndi ekki breyta neinu. Það myndi aðeins þýða að fjölmiðlar sæju sér hag í því og teldu ágóða fólginn í því að brjóta lögin og brjóta gegn réttindum annarra og myndu þá halda því áfram." Að sögn Sigríðar Rutar var stefnan birt í gær, en málið verður þingfest þriðjudaginn 8. nóvember nk.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert