Jóna Hrönn Bolladóttir valin sóknarprestur í Garðaprestakalli

Jóna Hrönn Bolladóttir.
Jóna Hrönn Bolladóttir.

Valnefnd í Garðaprestakalli ákvað á fundi sínum þann 9. nóvember síðastliðinn að leggja til að sr. Jónu Hrönn Bolladóttur, miðborgarpresti, verði veitt embætti sóknarprests í Garðaprestakalli sem auglýst var í september. Sjö umsækjendur voru um embættið sem er veitt frá 1. desember 2005.

Sr. Jóna Hrönn Bolladóttir útskrifaðist sem guðfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1991 og var vígð sem prestur í Vestmannaeyjum sama ár. Hún starfaði sem miðbæjarprestur KFUM og K frá 1998 og var skipuð miðborgarprestur Þjóðkirkjunnar frá 1. janúar 2001. Hún hefur einnig starfað mikið að æskulýðs- og fræðslumálum innan kirkjunnar. Kirkjumálaráðherra veitir embættið til fimm ára að fenginni niðurstöðu valnefndar.

Hans Markús Hafsteinsson, sem áður gegndi starfi sóknarprests í Garðasókn, hefur verið settur í nýtt embætti héraðsprests í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra. Deilur í Garðasókn fyrr á þessu ári urðu til þess að ákveðið var að færa séra Hans Markús til í starfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert