Varningurinn kemst ekki allur í þoturnar: Töskur skildar eftir

Boeing 757.
Boeing 757. mbl.is/Jim Smart

Verslunargleði Íslendinga í Bandaríkjunum á aðventunni hefur valdið óvenjulegu ástandi þegar farþegarnir búa sig undir að snúa heim. Á undanförnum vikum hefur það ítrekað komið fyrir að þotur Icelandair hafi verið fylltar svo rækilega að vélarnar hafa ekki getað flutt allan farangurinn. Þó er farangursrýmið í Boeing 757 þotunum allstórt. Dæmi eru um að skilja hafi þurft eftir allt upp í fjörutíu töskur og senda þær síðan heim daginn eftir eða eftir því sem plássið leyfir í næstu ferðum.

Farþegar á heimleið hafa fyllt vélar á leið heim frá Boston, New York og Minneapolis, að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair. Hann segir þetta ástand endurspegla lágt gengi dollarans sem virkar hvetjandi á fólk til að versla þar vestra. Nefna má að Boeing 757 þotur Icelandair sem notaðar eru í Ameríkuflugið taka 189 farþega.

Ameríkuferðum hefur fjölgað um helming
Nýjar farangursreglur í Ameríku og Evrópuflugi Icelandair tóku gildi 15. nóvember. Farþegar á almennu farrými mega innrita tvær einingar af farangri að hámarki 23 kg hvora en 32 kg á Saga Business Class. Með þessu var farangursheimild á almennu farrými minnkuð úr 64 í 46 kg.

Guðjón bendir á að Ameríkuferðum Íslendinga hafi fjölgað um 50% frá því 2004 sem telst vera gríðarleg aukning. „Eina skýringin sem hægt er að gefa á því er gengi dollars. Á þessum árstíma blasir við að margir eru að fara í verslunarleiðangra,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert